Erlent

Tíu bandarískra sjóliða saknað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tundurspillirinn John S McCain er nefndur eftir föður og afa þingmannsins John McCain.
Tundurspillirinn John S McCain er nefndur eftir föður og afa þingmannsins John McCain. Vísir/afp
Tíu bandarískra sjóliða er saknað og fimm eru særðir eftir að tundurspillir Bandaríkjahers lenti í árekstri við líberískt olíuskip úti fyrir ströndum Singapúr, að því er fram kemur í tilkynningu frá bandaríska sjóhernum. BBC greinir frá.

Tundurspillirinn, John S McCain, var á siglingu austan við Singapúr og stefndi að höfn þegar áreksturinn varð. Viðamiklar leitar- og björgunaraðgerðir fara nú fram á svæðinu en þyrlur Bandaríkjahers, auk björgunarmanna frá landhelgisgæslum Malasíu og Singapúr, eru þar að störfum.

Tilkynnt var um samstuðið klukkan 05:24 að staðartíma í morgun, mánudag, eða 21:24 að íslenskum tíma í gærkvöldi. Skipið John S McCain, sem nefnt er eftir föður og afa þingmanns Repúblikana, John McCain, varð fyrir skemmdum á vinstri hlið. Tankur á olíuskipinu, Alnic MC, skemmdist við áreksturinn en engan úr áhöfn þess sakaði. Þá fór engin olía út í sjó en skipið er nokkuð stærra en tundurspillirinn.

John McCain og Donald Trump Bandaríkjaforseti hafa báðir sagst biðja fyrir sjóliðunum.

Fjórir hinna slösuðu eru ekki lífshættulega særðir en farið hefur verið með þá á sjúkrahús í Singapúr. Sá fimmti þurfti ekki á frekar læknisaðstoð að halda. Bæði skipin eru nú á leið í land.

Þetta er annar árekstur bandarísks herskips á síðustu mánuðum en sjö bandarískir sjóliðar létust í árekstri herskipsins Fitzgerald við vöruflutningaskip úti fyrir ströndum Japans í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×