Sport

Titlalaus Conor | UFC tekur af honum seinna beltið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Conor á hátindinum með beltin tvö. Síðan þá hefur hann ekkert barist og er að missa seinna beltið sitt.
Conor á hátindinum með beltin tvö. Síðan þá hefur hann ekkert barist og er að missa seinna beltið sitt. vísir/getty
Conor McGregor var fyrsti bardagakappinn sem nær því að vera handhafi tveggja belta á sama tíma hjá UFC en í apríl verður hann orðinn titlalaus.

Dana White, forseti UFC, staðfesti í dag að hann muni taka léttvigtarbeltið af Conor fyrir UFC 223 sem fer fram 7. apríl. Bardagi Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson verður um alvöru beltið í vigtinni en ekki bráðabirgðabeltið.

Conor tryggði sér léttvigtarbeltið þann 12. nóvember árið 2016. Síðan þá hefur hann ekki barist fyrir UFC og því ekki skrítið að UFC taki beltið af honum. Helst hefur verið gagnrýnt að það hafi ekki gerst fyrr.

„Er Conor svekktur yfir þessari niðurstöðu? Nei, hann skilur þetta alveg. Hann er búinn að græða mikla peninga og vill taka sér gott frí. Lífið heldur samt áfram sem og þessi þyngdarflokkur,“ sagði White.

UFC vonast að sjálfsögðu eftir því að Conor muni berjast við sigurvegarann úr þessum bardaga um beltið síðar á árinu en White er ekki viss um að við sjáum Conor nokkurn tímann aftur í búrinu.

„Þegar fólk græðir eins mikla peninga og Conor græddi á síðasta ári skapast eðlilega óvissa um hvort viðkomandi snúi aftur í sína íþrótt. Þetta var mikið af peningum sem hann græddi á bardaganum gegn Mayweather.“

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×