Handbolti

Titilvonir Kiel dvínuðu eftir tap fyrir Magdeburg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð og lærisveinar hans gætu þurft að sjá á eftir þýska meistaratitlinum.
Alfreð og lærisveinar hans gætu þurft að sjá á eftir þýska meistaratitlinum. vísir/getty
Kiel færist fjær þýska meistaratitlinum í handbolta eftir eins marks tap, 29-28, fyrir Magdeburg á útivelli í kvöld.

Kiel er komið niður í 3. sæti deildarinnar með 46 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Rhein-Neckar Löwen sem getur náð fjögurra stiga forskoti á Alfreð Gíslason og lærisveina hans með sigri á Leipzig í leik sem lýkur seinna í kvöld.

Domagoj Duvnjak var markahæstur í liði Kiel með sjö mörk en Marko Vujin kom næstur með sex mörk. Michael Damgaard skoraði níu mörk fyrir Magdeburg og Robert Weber átta, þ.á.m. sigurmarkið rúmri mínútu fyrir leikslok.

Hannover-Burgdorf vann þriggja marka sigur, 25-22, á Füchse Berlin á heimavelli.

Bjarki Már Elísson skoraði fjögur af mörkum Berlínarrefanna sem eru í 5. sæti deildarinnar með 35 stig, tveimur stigum á undan Hannover sem er í því sjöunda. Rúnar Kárason lék ekki með Hannover í kvöld.

Bergischer vann afar mikilvægan sigur á N-Lübbecke, 26-27, og er nú fimm stigum frá fallsæti.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer og Björgvin Páll Gústavsson varði sjö skot í marki liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×