Íslenski boltinn

Titillinn aftur í Garðabæinn: Stjarnan Íslandsmeistari 2016

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það var gleðistund á Samsung-vellinum í kvöld.
Það var gleðistund á Samsung-vellinum í kvöld. vísir/eyþór
Stjarnan varð í dag Íslandsmeistari í knattspyrnu kvenna árið 2016 eftir að hafa unnið 4-0 sigur á FH í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í dag.

Breiðablik var eina liðið sem gat náð Stjörnunni að stigum fyrir leiki dagsins en Blikar töpuðu í kvöld fyrir Val, 1-0. Blikar töpuðu þar með sínum fyrsta leik í sumar.

Sigur Stjörnunnar var svo sannarlega verðskuldaður en liðið var þó lengi að brjóta ísinn. Katrín Ásbjörnsdóttir gerði það loks undir lok fyrri hálfleiks er hún nýtti sér mistök í vörn FH-inga og skoraði með skalla.

Stjörnukonur héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik en Lára Kristín Pedersen og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir skoruðu báðar á fyrsta stundarfjórðungnum og gerði Stjarnan þar með út um leikinn.

Katrín lagði upp bæði þessi mörk og skoraði svo fjórða mark Stjörnunnar með góðu skoti á 74. mínútu. Hún var nálægt því að skora þriðja mark sitt í leiknum en þrennan verður að bíða betri tíma.

Jeannette Williams átti góðan leik í marki FH þrátt fyrir að hafa fengið að hirða boltann fjórum sinnum úr eigin marki. En úti á velli voru yfirburðir Íslandsmeistaranna algerir og fögnuðu Stjörnustúlkur vel og innilega í leikslok, eins og vera ber.

Þetta er fjórði Íslandsmeistaratitill Stjörnunnar á síðustu sex tímabilum. Liðið varð fyrst Íslandsmeistari árið 2011 og vann svo tvö ár í röð, 2013 og 2014. Blikar urðu hins vegar meistarar í fyrra.

Íslandsmeistarar Stjörnunnar 2016.Vísir/Eyþór



Fleiri fréttir

Sjá meira


×