Innlent

Tíndu átta tonn af rusli í fyrra

Svavar Hávarðsson skrifar
Í fyrra komu um 60 manns saman til hreinsunarstarfa.
Í fyrra komu um 60 manns saman til hreinsunarstarfa. mynd/Grétar Sigurðsson
Ísafjarðarbær, hagsmunaaðilar og fyrirtæki standa fyrir hreinsunarátaki á Hornströndum á laugardaginn, 23. maí – annað árið í röð. Í fyrra var hreinsaður upp aragrúi af plastrusli sem hafði rekið á fjörur.

Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar, segir að í fyrra fóru tæplega 60 manns snemma í júní. Hreinsað var í Hlöðuvík, Kjaransvík og Hælavík í friðlandi Hornstranda. „Ruslið var alls 7-8 tonn, aðallega plast. Þarna var ýmislegt sem tengist fiskveiðum eins og netakúlur og -dræsur, en líka plastbrúsar og plastflöskur. Ruslið á það allt sameiginlegt að hafa rekið á land, þetta er ekki rusl sem er hent á staðnum,“ segir Hálfdán

Að þessu sinni verður farið fyrir Horn og hreinsað í Látravík við Hornbjargsvita og eins langt suður eftir og mannskapur og tími leyfa. Verður þá hreinsað í Hrollaugsvík, Smiðjuvík, Barðsvík og Bolungarvík.

Siglt verður frá Ísafirði. Hver sjálfboðaliði nestar sig sjálfur en fær veglega grillmáltíð á þessum fallega stað áður en haldið verður til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×