Innlent

Tímaspursmál hvenær norðurljósin láta sjá sig

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Norðurljósin stigu tilkomumikinn dans yfir Íslandi í gær. Ljósmyndari Vísis, Anton Brink, var líkt og fleiri með myndavélina á lofti.
Norðurljósin stigu tilkomumikinn dans yfir Íslandi í gær. Ljósmyndari Vísis, Anton Brink, var líkt og fleiri með myndavélina á lofti. visir/anton brink
Tímaspursmál er hvenær norðurljósin láta á sér kræla, segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins. Búist er við miklu sjónarspili í kvöld og hefur fjöldi fólks komið sér fyrir víða á landinu til þess að berja þetta náttúruundur augum.

„Besti tíminn er á milli klukkan ellefu og eitt þannig að við bíðum bara róleg. En við sjáum að þau eru aðeins farin að láta meira á sér bera, ekkert mikið en aðeins,“ segir Sævar Helgi í samtali við Vísi. Hann biður fólk um að sýna þolinmæði.

„Það eina sem maður er hræddur um er að fólk sé ekki nógu þolinmótt. Maður þarf að bíða og vona það besta. En ég mun allavega ekki hætta fyrr en ég sé dansandi, blússandi og litskrúðuga norðurljósasýningu. Hún kemur. Þetta er bara spurning um að vera þolinmóður.“

Sævar Helgi er staddur í Perlunni og telst honum til að um hundrað manns séu þar þessa stundina. Álíka fjöldi er við Hallgrímskirkju og Gróttu, að sögn viðstaddra.

Uppfært:

Norðurljósin létu sjá sig upp úr klukkan ellefu í kvöld og að sögn viðstaddra í Perlunni var almenn gleði með sýninguna. Búist er við nokkurri norðurljósavirkni annað kvöld.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×