Erlent

Tímamótakosningar í Grikklandi

vísir/ap
Tímamótakosningar verða í Grikklandi í dag, en samkvæmt skoðanakönnunum eru miklar líkur á að stjórnarandstöðuflokkurinn Syriza sigri. Það er talið geta leitt til þess að Grikkir reyni að semja upp á nýtt um endurgreiðslur á neyðarlánum til þjóðarinnar.

Mikil spenna er í Evrópu vegna kosninganna, en Syriza- flokkurnn vill fá afskrifaðan stóran hluta neyðarlána sem landið hefur fengið frá Evrópusambandinu, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabanka Evrópu undanfarin ár.

Sitjandi stjórn landsins óttast að ef stjórnarandstaðan fer með sigur af hólmi munu Grikkir ekki standa í skilum á afborgunum lána sinna, og að þeir hrökklist úr evrusamstarfinu í kjölfarið. Antonis Samaris, forsætisráðherra Grikklands segir að mikil áhætta fylgi því að greiða Syriza flokknum atkvæði sitt. Gríska þjóðin hafi tvo valkosti, annaðhvort að taka stefnuna fram á við eða að halda út í óvissuna. Miklar efnahagsþrengingar hafa verið í Grikklandi undanfarin ár og lítil batamerki sjáanleg.

Atvinnuleysi er um 25 prósent og hátt í 50 prósent á meðal yngri hluta þjóðarinnar. Skuldir Grikkja nema um 175 prósent af vergri landsframleiðslu en frá efnahagshruninu, 2008 hafa Grikkir fengið 240 milljarða evra að láni frá áðurnefndum stofnunum. Búist er við því að útgönguspár liggi fyrir um leið og kjörstöðum lokar kl. 17 að íslenskum tíma, en um 9,8 milljónir Grikkja eru á kjörskrá í þingkosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×