Innlent

Tímamót í 19 ára sögu Vísis

Stiklað á stóru í sögu Vísis sem fagnar 19 ára afmæli þann 1. apríl næstkomandi. Tímamótunum verður fagnað með nýrri uppfærslu á Vísi og hvetjum við lesendur til að fylgjast vel með á næstu dögum.

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úrklippa úr DV þann 1. apríl 1998 þar sem Vísir var kynntur til leiks. Vefurinn var settur á laggirnar af Frjálsri fjölmiðlun, útgáfufélagi DV.

Vísir fagnar 19 ára afmæli þann 1. apríl næstkomandi. Tímamótunum verður fagnað með nýrri uppfærslu á Vísi og hvetjum við lesendur til að fylgjast vel með á næstu dögum.

Hér að neðan er stiklað á mjög stóru í viðburðaríku lífshlaupi vefsins, allt frá opnuninni 1. apríl 1998 til dagsins í dag. Um er að ræða margvísleg tímamót; sum eru stór, önnur eru minni og alls ekki skal litið svo á að um tæmandi lista sé að ræða.

1998 - Vísir í loftið

Það var Halldór Blöndal, þáverandi samgönguráðherra, sem ýtti Vísi formlega úr vör við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu þann 1. apríl árið 1998.

Frá ræsingu Vísis, þann 1. apríl 1998.

Við opnunina naut samgönguráðherra aðstoðar fyrrverandi Bandaríkjaforsetans Bills Clinton sem talaði í gegnum gervihnött og Bills Gates, framkvæmdastjóra Microsoft, sem óskaði Íslendingum til hamingju með „visir.is" frá aðalstöðvum sínum í Seattle.

Þetta innskot var reyndar í anda dagsins, 1. apríl, því bandarískir „tvífarar" þessara merkismanna fóru með hlutverk þeirra. 

Þá var fyrsta sjónvarpsauglýsing Vísis frumsýnd en hana má sjá í spilaranum hér að ofan. Þar er hægt að heyra Sykurmolann Einar Örn Benediktsson þylja vísu um ágæti internetsins og ljúka henni á hinum fleygu orðum „Farðu ekki á mis, við Vísir.is“.

Hljómsveitin Maus lék lagið Égímeilaðig sem var einstaklega við hæfi enda varð Vísir ein af fyrstu íslensku vefsíðunum til að bjóða lesendum upp á ókeypis tölvupóst.

Alls sóttu 12 þúsund gestir Vísi fyrsta daginn sem þótti prýðileg aðsókn í þá daga.

Það var ljóst frá upphafi að Vísir ætlaði að láta að sér kveða og bera uppátæki hans á hveitibrauðsdögunum það með sér. 

Sem dæmi má nefna raunveruleikaþáttinn „Hiti 98“ þar sem 6 ungir Íslendingar voru sendir til Ibiza þar sem þeir skemmtu sér saman í einni íbúð í tvær vikur. Þátttakendurnir héldu dagbók og greindu lesendum Vísis og hlustendum FM957 frá öllu dramanu, ástinni og örlögunum sem á daga þeirra drifu í syndabælinu. 

Þá hélt Vísir úti því sem mætti kalla skemmtistaðavaktinni Vísisauganu sem gerði notendum „færi á því að kíkja út á lífið um helgar og vera þannig „þar sem hlutirnir eru að gerast en sitja samt heima.“

Það er spurning hvort Vísir ætti að byrja aftur með beinar útsendingar frá skemmtistöðum borgarinnar? 

1999 - Dr. Love og netpósturinn 

Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson leiddi lesendur Vísis í allan sannleikann um samskipti kynjanna og svaraði spurningum þeirra undir listamannsnafninu Dr. Love. Hvort sem rætt var um stefnumótahegðun eða kynlíf komu lesendur aldrei að tómum kofanum hjá Dr. Love sem naut mikilla vinsælda undir lok síðustu aldar.

Þessi félagi hérna var lukkufígúra Vísis á tímabili. Við vitum hins vegar ekki hvað hann hefur verið að sýsla síðan árið 2004.

Um svipað leyti var farið að bjóða lesendum að velja sér ókeypis netfang og hafa tölvupóstinn sinn hjá Vísi. Ekki leið á löngu áður en @visir.is-endingar skiptu þúsundum og enn þann dag í dag er fjöldi fólks sem vitjar tölvupóstsins síns á Vísi daglega.

2001 - Vísir 2.0

Önnur útgáfa Vísis fór í loftið árið 2001 og var hraðvirkari og, að okkar mati, fallegri en forverinn. Myndir léku æ stærra hlutverk og undirsíðurnar skiptu tugum.

2002 - Fréttablaðið á rafrænu

Fréttablaðið og Vísir hafa verið tengd nær órofa böndum allt frá fyrsta tölublaði. Lesendur sem ekki fá blaðið hafa frá árinu 2002 geta nálgast það í heild sinni á Vísi og nýta þúsundir sér þann kost á hverjum degi.

2004 - Vísir hinn þriðji

Þriðji Vísir er einn af okkar uppáhalds. Hann var sá fyrsti sem bauð lesendum upp á að horfa á sjónvarps- og hlusta á útvarpsstöðvar 365 sem hefur notið ævarandi vinsælda allar götur síðan. Vísisfígúran sem landmenn fengu að kynnast þetta sama ár naut þó ekki jafn mikilla vinsælda og var hún látin hverfa skömmu síðar.

2005 - Fasteignavefurinn

Nú þegar húsnæðismarkaðurinn er á milli tannanna á fólki er gott að hugsa til þess hversu mikið fasteignavefur Vísis auðveldaði húsnæðisleitendum lífið þegar honum var hleypt af stokkunum árið 2005.

Þau Edda Andrésdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson voru meðal þeirra sem stóðu hina löngu vakt meðan NFS lifði.Vísir/Heiða

2005- Ahh, NFS

Hin metnaðarfulla Nýja fréttastofa (NFS) var alltaf í þráðbeinni útsendingu á Vísi meðan hennar naut við. Hún tórði fram á haustmánuði ársins 2006 þegar ákveðið var að fréttastofan myndi senda á ný undir merkjunum kvöldfrétta Stöðvar 2. Þær eru á sínum stað á Vísi á hverjum degi klukkan 18:30.

2007 - Kampavísir

Ákveðið var að poppa upp á Vísi hið alræmda góðærisár 2007. Það gerði greinilega mikla lukku því sama ár hlaut Vísir Íslensku vefverðlaunin. Fleiri myndbönd, stærri myndir og hraðari vefur  - allt eins og það á að vera.

2007 - Snjallsímabyltingin hefst með iPhone 

Þegar Steve heitinn Jobs, þáverandi forstjóri Apple, kynnti fyrstu útgáfu iPhone-símans árið 2007 gerðu fáir sér í hugarlund hvurslags áhrif snjallsímavæðingin sem fylgdi í kjölfarið myndi hafa á blaðamennsku.

Meira en helmingur allra lesenda Vísis lesa vefinn nú á snjalltækjum og því nauðsynlegt fyrir blaðamenn að passa að skrif þeirra komi vel út á litlum snertiskjám.

Sigríður Klingenberg byrjaði að spá fyrir lesendum Vísis árið 2015.

2008 - Boltavaktin byrjar að rúlla

Ríkuleg umfjöllun um íþróttir hefur allt frá upphafi verið eitt af aðalsmerkjum Vísis og því var Boltavaktin, þar sem fylgjast má með gangi mála í leikjum á rauntíma, kærkomin viðbót í verkfæratösku Vísismannsins.

2009 - Vísir tístir

Á Twitter skiptir hraðinn máli og því lá í augum uppi að vefur sem gefur sig út fyrir að vera fyrstur með fréttirnar myndi stofna Twitter-aðgang. Þið finnið okkur á @visir_is.

2010 - Facebook bætist í hópinn

Í tilefni af fimmtu útgáfu Vísis, sem leit dagsins ljós árið 2010, ákvað Vísir að byrja að feta sig áfram á Facebook. Nú er svo komið að nær fjórðungur allra lesenda Vísis koma af Facebook og beinar útsendingar á síðunni okkar eru daglegt brauð. Læk á það. Facebook-síðuna má nálgast hér.

2012 - Sexy Vísir

Vísir hinn sjötti heiðraði okkur með nærveru sinni árið 2010 en hann er sá Vísir sem við þekkjum í dag. Hann fékk líka Íslensku vefverðlaunin, jei! Stærri ljósmyndir, útvarps- og sjónvarpsklippur og alls konar eiginleikar sem Vísi 1 gat ekki látið sig dreyma um.

2014 - Iceland Magazine í loftið

Enski hluti Vísis, Iceland Magazine, fór að fræða umheiminn um allt það sem íslenskt er árið 2014. How do you like Vísir?

2015 - Sigga Kling

Spákonan okkar allra, Sigríður Klingenberg, byrjaði að spá fyrir landsmönnum mánaðarlega á Vísi árið 2015. Allt frá fyrstu spá hefur hún verið einn af vinsælustu greinarhöfum á Vísi og það er hreinlega með ólíkindum að fólk hafi komist í gegnum mánuðinn áður en leiðsagnar hennar naut við.

2016 - Beinar útsendingar, beinar útsendingar og fleiri beinar útsendingar

Það var svo sannarlega ekki gúrkutíð á síðasta ári með öllum sínum Panamaskjölum, kosningum og Evrópumótinu í knattspyrnu. Skýrasta merkið um það eru þær 550 beinu útsendingar sem Vísir blés til árið 2016. Fréttirnar geta ekki borist mikið hraðar en það.

Sem fyrr segir munum við fagna enn einum tímamótunum í sögu Vísis þann 1. apríl næstkomandi.

Fylgist með!


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×