Fótbolti

Tímabilinu í Tælandi slaufað vegna fráfalls konungsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Mikil sorg ríkir í Tælandi vegna andláts konungsins Bhumibol Adulyadej.

Í kjölfar fráfalls konungsins í síðustu viku lýsti ríkisstjórn Tælands yfir 30 daga þjóðarsorg. Íbúar landsins eiga að klæðast svörtum eða dökkum fötum á þessum tíma og sleppa því að sækja viðburði eins og tónleika eða fótboltaleiki. Og vegna þjóðarsorgarinnar ákvað Knattspyrnusamband Tælands ákvað að hætta keppni á tímabilinu þegar þrjár umferðir voru eftir.

Það þýddi að Muangthong United var krýnt sem meistari og Army United, Chainat Hornbill og BBCU féllu. Þá ræðst það á hlutkesti hvort Muangthong eða Buriram United verður deildarbikarmeistari.

BBCU var þegar fallið en hin tvö liðin áttu enn möguleika á að bjarga sér og voru því afar ósátt við þennan ótímabæra endi á tímabilinu.

Liðin sem féllu áfrýjuðu þessari niðurstöðu. Þegar fulltrúar allra 18 liðanna í tælensku deildinni hittust var hins vegar ákveðið að standa við fyrri ákvörðun og hætta keppni.

Líklegt er að þeir sem voru mótfallnir því að ljúka tímabilinu svona snemma hafi látið undan þrýstingi en í Tælandi telst það glæpur að gagnrýna eða ófrægja meðlimi konungsfjölskyldunnar. Þeir sem gerast sekir um slíkt geta átt von á fangelsisdómi.

Ekki eru allir landsmenn sáttir við þessi málalok og telja að það hefði frekar átt að fresta leikjunum en að aflýsa þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×