Erlent

Tiltölulega kyrrt á víglínum Sýrlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Fyrsta vopnahléið í fimm ára borgarastyrjöld Sýrlands tók gildi á miðnætti (Tíu í gærkvöldi að íslenskum tíma). Samkvæmt fyrstu fregnum er tiltölulega kyrrt á víglínum uppreisnarhópa og stjórnarhersins, en þó berast fregnir af loft- og stórskotaárásum.

Erindreki Sýrlands hjá Sameinuðu þjóðunum, Staffan de Mistura, segir að verið sé að rannsaka eitt brot gegn vopnahléinu. Skömmu eftir miðnætti féllu tveir þegar bíll var sprengdur í loft upp nærri Hama, en ekki liggur fyrir hverjir frömdu árásina.

Vopnahléið nær til uppreisnarhópa og stjórnarhersins, en ekki til hryðjuverkahópa eins og ISIS og Nusra Front.

Syrian Observatory for Human Rights segja frá því að einhver skothríð hafi heyrst í borginni Aleppo í nótt, en annars hafi allt verið með kyrrum kjörum.

Deiluaðilar munu hefja friðarviðræður þann 7. mars næstkomandi, haldi vopnahléið þangað til.

Stjórnvöld í Moskvu hafa ákveðið að engar flugvélar þeirra muni fljúga yfir Sýrlandi í dag. Hershöfðinginn Sergei Rudskoi sagði það gert til að koma í veg fyrir öll mistök og til að styðja við vopnahléið sem tók gildi í gærkvöldi. Rússar ætla sér að halda áfram að gera loftárásir á Íslamska ríkið og Nusra Front.


Tengdar fréttir

Stefnt að vopnahléi á laugardag

Sýrlandsstjórn og helstu fylkingar sýrlenskra stjórnarandstæðinga hafa fallist á vopnahlé. Kjósa á 13. apríl.

Fallist hefur verið á 2 vikna vopnahlé

Uppreisnarhópar í Sýrlandi og stjórnarher Assads heita því að virða vopnahlé, sem hefjast á í dag. Árásir stóðu fram á síðustu stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×