Innlent

Tillögur sniðnar að eldri lögmönnum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Kristrún Elsa Harðardóttir.
Kristrún Elsa Harðardóttir. Mynd/DIKA lögmenn
Það lítur þannig út að tillögur lögmannafélagsins um breytingar á lögmannalögum hafi verið samdar þannig að þær tryggi eldri lögmönnum mál í Hæstarétti í lengri tíma. Þetta er mat Kristrúnar Elsu Harðardóttur, formanns Félags kvenna í lögmennsku.

„Þessar tillögur eru samdar af hæstaréttarlögmönnum, ég held að það hafi verið einn héraðsdómslögmaður í þessum verkefnahópi sem kom að þessum tillögum, og svo er einn héraðsdómslögmaður af fimm mönnum í stjórn lögmannafélagsins. Þannig að þetta lítur þannig út,“ segir Kristrún.

„Við vitum að það þarf að breyta reglunum um hvernig maður öðlast réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti af því að það er að koma nýtt dómstig. En þetta er ekki rétta leiðin að okkar mati, þessar tillögur eru allt of flóknar og í algjöru ósamræmi við það sem er að gerast á Norðurlöndum,“ segir Kristrún.

Síðasta fimmtudag voru tillögur til breytinga á lögmannalögum samþykktar á fundi Lögmannafélags Íslands. Lítill hluti félaga sat fundinn, eða um sextíu manns af 1.100 manna félagi.





Samkvæmt núverandi kerfi þurfa héraðsdómslögmenn sem vilja öðlast réttindi til málflutnings í Hæstarétti að hafa haft réttindi til að vera héraðsdómslögmenn í fimm ár, hafa flutt þrjátíu mál fyrir héraðsdómi (þar af tíu einkamál) og fjögur prófmál í Hæstarétti. Oft hefur verið erfitt fyrir lögmenn að öðlast réttindi vegna þess að erfitt hefur verið að fá prófmál í Hæstarétti. Með nýju tillögunum munu héraðsdómslögmenn eftir fimm ár sem slíkir og eftir að hafa flutt tuttugu og fimm mál fyrir héraðsdómi (fimmtán einkamál) hljóta málflutningsréttindi í Landsrétti eftir fjögur prófmál þar, og hljóta málflutningsréttindi í Hæstarétti þremur árum síðar eftir að hafa flutt fimmtán mál fyrir Landsrétti (tíu einkamál). Tilgangur tillagnanna að sögn lögmannafélagsins er að auðvelda öflun réttinda til málflutnings á æðri dómstigum. Ekki eru þó allir sammála því að það muni takast með tillögunum. 

„Það hefur verið krafa frá lögmönnum um það í mörg ár að setja upp skilyrði fyrir því að þeir sem taki héraðsdómslögmannspróf séu með starfsreynslu af lögmannsstofu. Í stað þess að verða við þessari kröfu lögmanna, býr Lögmannafélag Íslands til kerfi sem þeim finnst hentugt en það fékk eiginlega enginn að segja neitt um þetta,“ segir Kristrún.

Hún segir að á Norðurlöndunum dugi ýmist starfsreynsla til þess að flytja mál í Hæstarétti eða tvö prófmál. Hún telur að nægja myndi að hafa tvö prófmál í Landsrétti til að hljóta málflutningsréttindi þar, prófmálin ættu þó ekki að vera bundin neinum öðrum lögmanni. „Ég skil svo ekki af hverju við þurfum aukastall til að flytja mál í Hæstarétti. Að mínu mati ættirðu að vera með réttindi í Hæstarétti líka þegar þú ert kominn með réttindi fyrir Landsrétt.“

„Það þarf að einfalda þetta. Þetta eru metnaðarlausar tillögur, unnar í einhverri fljótfærni. Það er eitt og hálft ár í að Landsréttur taki til starfa, getum við ekki unnið þessar tillögur vel og af vandvirkni í stað þess að stjórnin slengi bara einhverjum tillögum framan í félagsmenn í sumarfríi og samþykki með ótalinni handauppréttingu."

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×