Erlent

Tilkynntu vélarbilun í síðustu skilaboðum sínum

Samúel Karl Ólason skrifar
Á myndinni má sjá kafbátinn ARA San Juan sem leitað hefur verið af frá því á miðvikudag.
Á myndinni má sjá kafbátinn ARA San Juan sem leitað hefur verið af frá því á miðvikudag. Vísir/EPA
Áhöfn kafbáts sem leitað hefur verið að undan ströndum Argentínu frá því á miðvikudaginn tilkynntu vélarbilun í sínum síðustu skilaboðum. Sjóher Argentínu tilkynnti þetta í dag og að sð skilaboð sem greindust á laugardaginn komu ekki frá kafbátnum. Vonir um að finna þá 44 sem eru í áhöfn bátsins á lífi hafa dvínað.

Óveður á svæðinu hefur gert leitina erfiða en vonir kviknuðu á ný þegar gervihnattaskilaboð greindust um helgina.

Sjóher Argentínu segir þó að skilaboðin séu ekki í samræmi við samskiptabúnað kafbátsins.

Sjá einnig: Námu hugsanlega boð úr neyðarsendi týnda kafbátsins

Umfangsmikil alþjóðleg leit stendur nú yfir á svæðinu en kafbáturinn hvarf um 430 kílómetra frá ströndum Argentínu. Um er að ræða rúmlega tólf skip frá Argentínu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Síle og Brasilíu, samkvæmt frétt Reuters.

Þar að auki hefur sérstakur leitarbúnaður verið fluttur til landsins frá Bandaríkjunum og einnig er leitað úr lofti.

Samkvæmt frétt BBC er talið að rafmagnsörðugleikar hafi gert áhöfn kafbátsins ómögulegt að ná sambandi við umheiminn.

Samkvæmt starfsreglum sjóhers Argentínu á að sigla kafbátum upp á yfirborðið þegar samskiptatæki þeirra virka ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×