Innlent

Tilkynningum um vanrækslu barna fjölgar í Hafnarfirði

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Samkvæmt skýrslunni fundaði Barnaverndarnefnd 14 sinnum á árinu vegna 27 barna í Hafnarfirði. Vanræksla og ofbeldi eru yfirleitt ástæður tilkynningar.
Samkvæmt skýrslunni fundaði Barnaverndarnefnd 14 sinnum á árinu vegna 27 barna í Hafnarfirði. Vanræksla og ofbeldi eru yfirleitt ástæður tilkynningar. vísir/vilhelm
Yfir 300 tilkynningar um vanrækslu komu inn á borð Barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar á síðasta ári. Tilkynningum um vanrækt börn í bænum hefur fjölgað það sem af er ári og hefur verið brugðist við auknu álagi með því að fjölga stöðugildum. Þetta kemur fram í ársskýrslu Fjölskylduþjónustu bæjarins sem birt var í vikunni.

„Ekki verða allar tilkynningar að málum,“ segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar. „Vanræksla, eins og hún er skilgreind, er alltaf stærsti málaflokkurinn. Tilkynningum er að fjölga og málum er að fjölga. Súlan fer upp í næstu ársskýrslu og þess vegna erum við að bregðast við með því að fjölga starfsmönnum. Maður spyr sig af hverju þetta er. Hvort fólk er meira vakandi að tilkynna. Það er kannski komin meiri meðvitund í samfélagið,“ segir Rannveig.

Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri
Fjölskylduþjónustan er með sálfræðing í 50% starfi sem Rannveig viðurkennir að sé of lítið og því sé fagnaðarefni að verið sé að fjölga starfsmönnum. „Við kaupum líka sálfræðiþjónustu og viðtöl af sálfræðingum. Á þessu ári hefur tilkynningum fjölgað eins og barnaverndunarmálum sem eru á okkar borði þannig að við erum að fá inn viðbótar stöðugildi. Bærinn er að koma til móts við barnavernd því öll viljum við hafa þessa hluti í lagi,“ segir hún en samkvæmt skýrslunni fékk Fjölskylduþjónustan um tvo milljarða frá Hafnarfjarðarbæ eða 12,28% af skatttekjum.

Athygli vekur að notendum hjá Ferðaþjónustu fatlaðra í bænum hefur fækkað um 36 á milli ára en eftir að Strætó tók yfir þjónustuna hafa notendur hennar verið óánægðir með hvernig til hefur tekist. Rannveig segir að kostnaður við nýja kerfið hafi aukist gríðarlega og ekki sé enn búið að hnýta lausa enda. „Kostnaður jókst alveg gríðarlega. Hann fór úr rúmum 80 milljónum króna á ári og hækkaði nánast um helming. Það hefur ekki tekist að ná kostnaðinum niður, því miður, og þessi sameiginlega ferðaþjónusta hefur ekki náð þeirri hagræðingu sem hún átti að gera. Síður en svo.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×