Lífið

Tilfinninga-, Lækna- og Talningar-Tómas taka höndum saman fyrir UN Women

Bjarki Ármannsson skrifar
Myndin umrædda.
Myndin umrædda. Mynd/Tómas Geir Howser
Tómas Geir Howser Harðarson, Tómas Guðbjartsson og Tómas Hrafn Sveinsson, einnig þekktir sem Tilfinninga-Tómas, Lækna-Tómas og Talningar-Tómas, komu saman við styttuna af Tómasi Guðmundssyni skáldi við tjörnina í Reykjavík í dag. Við tilefnið var tekin mynd af fjórmenningunum sem heldur betur hefur slegið í gegn á Twitter.

„Við vorum að taka upp auglýsingu í tenglsum við UN Women og #HeforShe, sem fer í loftið á næstu dögum,“ segir Tómas Geir, eða Tilfinninga-Tómas. „Þar leikum við okkur sjálfa að rökræða og ég ákvað að henda í eina mynd fyrir Twitter.“

Tómasarnir þrír eiga það allir sameiginlegt að hafa slegið í gegn hjá þjóðinni á undanförnu ári: Talningar-Tómas fyrir frammistöðu sína í kosningasjónvarpi RÚV, Tilfinninga-Tómas sem fyrirliði FG í Gettu Betur og skurðlæknirinn Lækna-Tómas fyrir ótrúlega björgun á mannslífi í desember síðastliðnum.

Tómas vill lítið gefa upp um það út á hvað auglýsingin gengur, en segir hana mjög skemmmtilega. Hann segir að vel hafi farið á þeim nöfnunum.

„Við höfum aldrei hist áður, allir þrír,“ segir hann. „Þannig að þetta var mjög gaman.“

Þegar þetta er skrifað, um hálftíma eftir að myndin var birt á Twitter, hafa þrjátíu Twitter-notendur deilt henni með fylgjendum sínum og rúmlega 130 smellt á „favourite.“ Þykir það með eindæmum góður árangur meðal íslenskra tístara.

„Það er mjög gott,“ segir Tómas og hlær. „Það var einmitt fullt af fólki búið að „favourite-a“ eftir bara nokkrar mínútur. Það er gaman að þessu.“


Tengdar fréttir

#TilfinningaTómas trendaði á Twitter

Tómas Geir Howser Harðarson, einn liðsmanna Gettu betur-liðs Fjölbrautaskólans í Garðabæ, vakti athygli fyrr í kvöld líkt og endranær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×