Erlent

Tilbúin til að gefast upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar standa vörð um svæðið.
Lögregluþjónar standa vörð um svæðið. V'isir/AFP
Alríkislögregla Bandaríkjanna hefur umkringt þá fjóru landtökumenn sem enn halda til í húsnæði friðlands í Oregon. 40 dagar eru liðnir frá því að Ammon Bundy og um 30 þungvopnaðir fylgismenn hans tóku yfir húsnæðið í mótmælaskyni gegn eign ríkisins á landi í vesturhluta Bandaríkjanna.

FBI hefur verið í viðræðum við fólkið sem segist vera tilbúið til að gefast upp. Um er að ræða hjónin Sean og Sandy Anderson, David Fry og Jeff Banta. Þau fóru að sofa fyrir skömmu og sögðust hafa loforð frá lögreglunni um að fá að vera í friði yfir nóttina. Þau ætla svo að gefast upp klukkan átta að staðartíma, eða um fjögur eftir hádegi hér.

Þau hafa reglulega birt myndbönd frá svæðinu sem sjá má hér. Myndböndin hafa vakið töluverða athygli þar sem fólkið hefur varpað fram fjölmörgum staðhæfingum.

Meðal þeirra er að Barack Obama vilji taka byssur af þunglyndu fólki. Þó líklegt verði að teljast að þau hafi átt við að Obama vilji taka byssur af kúguðu fólki. Að þau hafi ætlað að segja „opressed“, en ekki „depressed“.

Einn þeirra líkti sér við skosku frelsishetjuna William Wallace.

„Munið þið eftir Braveheart? Braveheart fór alla leið jafnvel þó hann hafi verið pyntaður.“ Þá hefur fólkið reglulega talað um að það óttist að vera myrt af lögreglumönnunum sem sitja um þau.

Á vef Oregonian er ítarlega fjallað um það þegar lögreglumenn færðu sig nær fólkinu í nótt og samskipti þeirra á milli.






Tengdar fréttir

Ammon Bundy og félagar handteknir í Oregon

Til skotbardaga kom í nótt þegar Alríkislögreglan bandaríska réðst til atlögu gegn vopnuðum hópi manna sem hafa haft skrifstofur náttúruverndarstofnunar í Oregon á sínu valdi um nokkurra vikna skeið. Einn mannanna féll í átökunum og annar særðist en leiðtogi þeirra, Ammon Bundy, er nú í haldi lögreglu ásamt sex öðrum félögum sínum.

Vonast eftir kraftaverki

Fjórir einstaklingar halda enn til í skrifstofum friðarlands í Oregon, en þau segjast ekki ætla að fara fyrr en þeim verði lofað að þau verði ekki ákærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×