Enski boltinn

Tilboð Stoke í Allen samþykkt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allen var aðeins átta sinnum í byrjunarliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Allen var aðeins átta sinnum í byrjunarliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. vísir/getty
Breskir fjölmiðlar fullyrða að Liverpool sé búið að samþykkja 13 milljóna punda kauptilboð Stoke City í velska miðjumanninn Joe Allen.

Walesverjinn var ekki fastamaður hjá Liverpool á síðasta tímabili og var aðeins átta sinnum í byrjunarliðinu í ensku úrvalsdeildinni.

Samningur Allens við Liverpool rennur út eftir næsta tímabil og í síðustu viku sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, að staða miðjumannsins væri til skoðunar.

Sjá einnig: Liverpool að næla í markahæsta leikmann Newcastle

Klopp vildi hins vegar lítið tjá sig um stöðu Allens eftir 2-0 sigur Liverpool á Huddersfield í æfingaleik í gær.

„Ég get ekkert tjáð mig um þetta því við einbeittum okkur bara að leiknum í dag,“ sagði Þjóðverjinn sem lýsti þó yfir hrifningu sinni á Allen.

„Ég kann mjög vel við hann og hann er frábær leikmaður. Ég vissi það fyrir EM og frammistaða hans þar staðfesti það,“ bætti Klopp við en Allen spilaði mjög vel með Wales á EM í Frakklandi þar sem velska liðið fór alla leið í undanúrslit.

Allen, sem er 26 ára, kom til Liverpool frá Swansea City sumarið 2012. Hann hefur alls leikið 129 leiki fyrir Liverpool og skorað sjö mörk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×