Innlent

Til skoðunar að birta jafn­óðum allar upp­lýsingar um ferða­kostnað þing­manna

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Forsætisnefnd Alþingis hefur til skoðunar að leggja til breytingar á reglum um endurgreiðslu á ferðakostnaði alþingismanna sem fela í sér að hægt verði að sjá allar greiðslur til þingmanna í hverjum mánuði. Beðið er samantektar á framkvæmd gildandi reglna.

Þær 4,6 milljónir sem Ásmundur Friðriksson fékk endurgreiddar í fyrra vegna aksturskostnaðar hafa dregið dilk á eftir sér. Forsætisnefnd Alþingis hefur til skoðunar að breyta reglum um upplýsingagjöf um endurgreiðslur sem þingmenn fá vegna ferðakostnaðar og fundaði nefndin um málið í dag.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu bíður nefndin eftir samantekt um beitingu gildandi reglna áður en hún leggur fram tillögur sínar. Meðal þess sem er til skoðunar er breyting sem felur í sér birtingu upplýsinga um allar endurgreiðslur til þingmanna jafnóðum í lok hvers mánðar.

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði á Alþingi í dag að upplýsa þyrfti um allan ferðakostnað þingmanna.

„Ekki bara akstur þeirra þingmanna sem aka heiman frá sér og til baka á hverjum degi, allan ferðakostnað, húsnæðiskostnað, kostnað við bílaleigubíla og svo framvegis, og svo framvegis. Af hverju er þetta viðkvæmt mál? Af því að það er bara verið að gefa örlítinn hluta af upplýsingunum. Við vitum hver ók mest. Við vitum núna hver ók næstmest en við höfum ekki fengið upplýsingar um hver er í 3., 4. og 5. sæti,“ sagði Helga Vala.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata kvaddi sér líka hljóðs í umræðunni á þingi í dag.

„Það er ógegnsæið, sem Alþingi hefur kannski ekki upplifað sem ógegnsæi hingað til, sem veldur tortryggninni. Því meira sem við getum birt um þetta allt saman, því betra. Því betra fyrir umræðuna, því betra fyrir þessa þingmenn sem njóta þessa kostnaðar eða nýta sér þessi réttindi,“ sagði Helgi Hrafn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×