Skoðun

Til hamingju með nýju Vínbúðina, ráðherra

Haukur Örn Birgisson skrifar
Vínbúð ríkisins opnaði nýverið breytta og bætta verslun við Stekkjarbakka í Reykjavík. Af því tilefni lét Vínbúðin birta heilsíðuauglýsingar í bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, nánar tiltekið hinn 23. október sl.

Viðskiptavinir, nýir sem gamlir, eru boðnir velkomnir – væntanlega svo þeir geti kynnt sér vörurnar sem búðin selur. Vörurnar eru, eins og allir vita, ekkert annað en áfengir drykkir.

Er þetta í alvörunni eðlilegt? Þ.e. að íslenska ríkið auglýsi sölu áfengis á sama tíma og saksóknari ríkisins höfðar refsimál á hendur fyrirsvarsmönnum einkafyrirtækja og íslenskir dómstólar dæma þá til refsingar fyrir nákvæmlega sama hlut. Sjáiði til, það er nefnilega refsivert að auglýsa áfengi á Íslandi samkvæmt áfengislögum nr. 75/1998.

Í lögunum er gengið svo langt að banna allar tegundir áfengisauglýsinga auk þess sem ekki má einu sinni sýna meðferð á áfengi í auglýsingum. Í umræddri auglýsingu Vínbúðarinnar hafði myndarlegt starfsfólk verslunarinnar raðað sér upp fyrir framan mikilfenglegt úrval verslunarinnar af koníaki.

Í þessu felst stórmerkilegur tvískinnungur íslenskra stjórnvalda. Að þeirra mati er ekkert athugavert við að refsa einstaklingum, jafnvel fangelsa þá, fyrir það eitt að auglýsa löglegar vörur á sama tíma og fyrirtæki á vegum ríkisins gerir nákvæmlega það sama.




Skoðun

Sjá meira


×