Fótbolti

Tiki-taka svæfir mig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Giovanni Trapattoni, fyrrum þjálfari Bayern og ítalska landsliðsins, er ekki hrifinn af leikstíl núverandi þjálfara Bayern, Pep Guardiola.

Hinn svokallaði Tiki-taka leikstíll hefur virkað vel fyrir lið Guardiola en hann er engu að síður umdeildur. Trapattoni segir að Pep hafi gengið of langt.

„Það er lið sem heldur boltanum í hálftíma án þess að skjóta á markið. Ég sofna alltaf. Mitt Bayern-lið hafði getuna til þess að ná árangri með skemmtilegum fótbolta,“ sagði Trapattoni kokhraustur.

Hinn 77 ára gamli Trapattoni hefur náð glæsilegum árangri víða og unnið deildina á Ítalíu, Þýskalandi, Portúgal og Austurríki.

Hann er hrifnari af Diego Simeone, þjálfara Atletico Madrid.

„Við Simeone erum líkir. Ég myndi segja að okkar lið spili svipaðan fótbolta. Okkar heimspeki í boltanum er sú sama. Það er meiri ákafi í leik hans liðs en Tiki-taka.“

Tiki-taka fékk svo á baukinn í kvöld þegar Bayern komst ekki í úrslit Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×