Golf

Tiger slapp líklegast fyrir horn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Tiger Woods.
Tiger Woods. Vísir/Getty
Slök hola var nálægt því að slá Tiger Woods úr leik á Opna breska meistaramótinu í golfi í dag. Tiger byrjaði illa annan daginn í röð og var þremur yfir eftir tvær holur í dag.

Tiger lék á þremur undir á fyrsta keppnisdegi og var hann því heilt yfir á pari eftir tvær holur. Eftir þær lagaðist spilamennskan hjá Tiger og paraði hann næstu fimmtán holur.

Þegar Tiger steig á sautjánda teig var ekkert sem benti til annars en að hann myndi komast í gegn um niðurskurðinn.

Tiger valdi hinsvegar að slá með driver af teignum og sló út af brautinni(e. out of bounds). Ekki lærði hann af fyrri mistökum sínum því hann endurtók leikinn í annarri tilraun og þurfti að slá fimmta högg af teig á holunni.

Hann náði hinsvegar að koma boltanum í holuna á þremur höggum og var því 3 höggum yfir pari fyrir lokaholuna. Talið var líklegt að til þess að ná í gegnum niðurskurðinn þyrftu leikmenn að leika á +2 yfir pari eða minna og hafði því Tiger aðeins eina holu til þess að laga stöðuna.

Tiger byrjaði holuna vel og var teighöggið með þrjú tréinu til fyrirmyndar en annað höggið var slakt og lenti hann í karganum um það bil 30 metrum frá holu. Innáhöggið bjargaði Tiger fyrir horn og setti hann niður pútt fyrir fugli og fyrir vikið kemst hann líklegast í gegnum niðurskurðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×