Golf

Tiger hættur við endurkomuna í bili

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fáum við að sjá Tiger í rauðu á lokadegi á ný?
Fáum við að sjá Tiger í rauðu á lokadegi á ný? vísir/getty
Tiger Woods er hættur við að snúa aftur út á golfvöllinn þessa helgina eftir langvarandi meiðsli, en hann telur sig ekki tilbúinn til að spila keppnisgolf alveg strax.

Tiger, sem spilaði síðast í ágúst á síðasta ári, er búinn að gangast undir tvær skurðaðgerðir vegna bakmeiðsla, en hann ætlaði að vera með á Safeway Open-mótinu sem hefst á fimmtudaginn.

Ekkert verður af því. Hann segir í yfirlýsingu á heimasíðu sinni að hann stefni nú að endurkomu á Hero World Challenge sem er mót sem hann heldur sjálfur á Bahama í desember.

„Ég veit að ég er ekki tilbúinn í að keppa á PGA-mótaröðinni né í Tyrklandi,“ segir Tiger á heimasíðu sinni en hann ætlaði að vear með á Turkish Airlines-mótinu í nóvember.

„Heilsan er góð og mér finnst ég sterkur en spilamennska mín er berskjölduð og alls ekki eins góður og hún þarf að vera. Ég er nálægt því að spila aftur og ég mun ekki gefast upp,“ segir Tiger Woods.

Tiger á að baki fjórtán sigra á risamótum en þessi fyrrverandi besti kylfingur heims er nú í 786. sæti á heimslistanum. Hann var einn af varafyrirliðum bandaríska Ryder-liðsins sem pakkaði Evrópu saman í Minnesota á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×