Golf

Tiger ekki verið í verri stöðu í 18 ár en samt tekjuhæstur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tiger Woods virðist ekki líklegur til að vinna mót þessa dagana.
Tiger Woods virðist ekki líklegur til að vinna mót þessa dagana. vísir/getty
Tiger Woods er í 62. sæti á heimslistanum í golfi en nýr listi var birtur í gær. Hann hefur ekki verið neðar á listanum síðan 1996 eða í heil 18 ár. Tiger, sem átti frábært ár 2013 og var kjörinn PGA-kylfingur ársins, var ömurlegur í fyrra og vann ekki eitt einasta mót.

Hann hefur glímt við erfið meiðsli að undanförnu og hætti keppni eftir ellefu holur á Farmers-meistaramótinu sem fram fór um helgina. Þá lék hann sinn versta hring á ferlinum á öðru móti í Phoenix fyrir tveimur vikum þegar hann spilaði 18 holur á 82 höggum eða ellefu höggum yfir pari.

Fari svo að Tiger verði ekki búinn að rífa sig upp á meðal 50 efstu fyrir byrjun mars verður hann ekki með á WGC-heimsmótinu sem fram fer á Trump National-vellinum í Flórída 5.-8. þess mánaðar.

Tiger hefur unnið það mót sjö sinnum en þar spila aðeins 50 efstu menn heimslistans. Sigurvegarinn á mótinu fær ríflega eina og hálfa milljón dala í sinn hlut.

Rory McIlroy er efstur á heimslistanum sem fyrr og Henrik Stenson í öðru sæti, en Bandaríkjamaðurinn Bubba Watson er þriðji. Fjórir Bandaríkjamenn eru á meðal tíu efstu.

Þrátt fyrir skelfilegt gengi á golfvellinum að undanförnu ern Tiger engu að síður tekjuhæsti kylfingurinn tólfta árið í röð.

Hann rakaði inn 55 milljónum dala á síðasta ári eða 7,2 miljörðum króna. Nær allar tekjurnar eða 99 prósent koma í gegnum styrktarsamninga. Þrátt fyrir að vera efstur tólfta árið í röð hafa tekjur hans aldrei verið lægri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×