Innlent

Tíðni banvænna umferðarslysa á Íslandi með þeim lægri

Bjarki Ármannsson skrifar
Tölurnar sem samantektin byggir á eru frá árinu 2010 en það árið létu níu manns lífið í umferðarslysum á Íslandi.
Tölurnar sem samantektin byggir á eru frá árinu 2010 en það árið létu níu manns lífið í umferðarslysum á Íslandi. Vísir/Arnþór/Skjáskot af vefi Vox
Tíðni umferðarslysa er nær hvergi lægri í heiminum en á Íslandi. Þetta sýnir samantekt Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem færð hefur verið í skemmtilegan búning af Pulitzer-stofnuninni. Tölurnar sem samantektin byggir á eru frá árinu 2010 en það árið létu níu manns lífið í umferðarslysum á Íslandi. Það gerir 2,8 dauðsföll á hverja hundrað þúsund íbúa en þetta hlutfall er lægra en í langflestum ríkjum heims.

Aðeins deyja hlutfallslega færri ár hvert í öðrum smáum ríkjum á borð við San Marino og Maldíveyjum. Í Svíþjóð látast þrír af hverjum hundrað þúsund á ári í umferðarslysum, 4,3 í Noregi og 4,7 í Danmörku.

Flest banvæn umferðarslys eiga sér stað í Kína og Indlandi, en þar láta samtals um hálf milljón manna lífið á ári í umferðarslysum. Hlutfallslega deyja þó flestir í slysum í þróunarlöndum. Samkvæmt greiningu WHO eiga níutíu prósent banvænna umferðarslysa sér stað í þróunarlöndum, en þar er aðeins að finna um helming allra ökumanna.

Hér fyrir neðan má skoða upplýsingarnar um tíðni banvænna umferðarslysa í heiminum á gagnvirkan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×