Erlent

Þýskur gísl afhöfðaður á Filippseyjum

Birgir Olgeirsson skrifar
Herinn á Filippseyjum hafði gert loftárás á bækistöðvar Abu Sayyaf í Sulu um liðna helgi.
Herinn á Filippseyjum hafði gert loftárás á bækistöðvar Abu Sayyaf í Sulu um liðna helgi. Vísir/Getty
Íslamskir skæruliðar á Filippseyjum hafa birt myndband sem sýnir þegar þýskur gísl er afhöfðaður. Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en gíslinn var Jurgen Kantner sem var numinn á brott af snekkju sinni í nóvember síðastliðnum.

Ferðafélagi hans, Sabine Merz, var myrt um borð í skútunni.

Skæruliðarnir höfðu farið fram á ígildi 600 þúsund dollara í lausnargjald fyrir Kantner, sem er um það bil 64 milljónir íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag. Þeir höfðu farið fram á að það yrði greitt í síðasta lagi í gær.

Kantner og Merz hafði áður verið rænt en þeim var haldið í 52 daga af sómalískum sjóræningjum árið 2008. Þeim var sleppt eftir að lausnargjald hafði verið greitt.

Skæruliðahópurinn sem ber á byrgð á þessu heiti Abu Sayyaf sem er sagður sá illskeyttasti á suðurhluta Filippseyja. Er meðlimir hans þekktir fyrir að afhöfða fórnarlömb sín.

Hópurinn hefur lýst yfir stuðningi við ISIS og hefur numið marga útlendinga sem og Filippseyinga á brott. Mörgum þeirra hefur verið sleppt gegn lausnargjaldi en aðrir eru enn í haldi.

Lögreglan á Filippseyjum sagði að Kantner hefði verið myrtur á Indana-svæðinu í Sulu-héraði í gærkvöldi. Lík hans er þó ekki fundið. 

Herinn á Filippseyjum hafði gert loftárás á bækistöðvar Abu Sayyaf í Sulu um liðna helgi til að reyna að ná til þeirra fyrir sunnudagskvöld, sem voru síðustu forvöð til að greiða lausnargjaldið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×