Erlent

Þýski NPD-flokkurinn ekki bannaður

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Dómarar við þýska stjórnlagadómstólinn í Karlsruhe, sem telur þýska þjóðernisflokkinn NPD ekki hættulegan þótt hann sé andlýðræðislegur.
Dómarar við þýska stjórnlagadómstólinn í Karlsruhe, sem telur þýska þjóðernisflokkinn NPD ekki hættulegan þótt hann sé andlýðræðislegur. Vísir/Epa
Stjórnlagadómstóll Þýskalands hefur hafnað því að banna flokk þýskra þjóðernissinna, NPD.

Þýsku sambandslöndin fóru fram á að flokkurinn yrði bannaður þar sem stefna hans og starfsemi bryti gegn 21. grein þýsku stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þeirri grein má banna starfsemi stjórnmálaflokka ef stefna þeirra og starfsemi beinist gegn lýðræðislegu stjórnskipulagi Þýskalands.

Stjórnlagadómstóllinn, sem hefur meðal annars það hlutverk að staðfesta slíkt bann, kvað upp sinn úrskurð í gærmorgun. Í úrskurðinum segir að flokkurinn hafi vissulega stefnu sem vinni gegn lýðræðisskipulagi landsins. Hann vilji beinlínis kollvarpa núverandi stjórnskipan til að geta komið í staðinn á einhvers konar alræði byggðu á þjóðernishugmyndum.

Hins vegar sé ekki sjáanlegt að flokkurinn hafi, í það minnsta ekki sem stendur, neina möguleika á því að hrinda þessari andlýðræðisstefnu sinni í framkvæmd. Þess vegna sé engin þörf á því að banna flokkinn.

NPD, eða Nationaldemokratische Partei Deutschlands, hefur starfað síðan 1964 og var um tíma nokkuð öflugur en á síðustu árum hefur kvarnast verulega úr flokknum. Fylgið hefur í staðinn leitað yfir í AfD-flokkinn sem hefur bæði nærst á og alið á ótta við flóttafólk og andstöðu við Evrópusambandið.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×