Erlent

Þýsk kjarnorkuver eiga að fá skaðabætur fyrir lokun

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hæstiréttur Þýskalands kvað upp úrskurð sinn í máli kjarnorkuveranna.
Hæstiréttur Þýskalands kvað upp úrskurð sinn í máli kjarnorkuveranna. Vísir/EPA
Hæstiréttur Þýskalands segir að eigendur kjarnorkuvera geti gert sér vonir um skaðabætur frá þýska ríkinu þegar starfsemi þeirra verður lögð niður.

Hins vegar sér dómstóllinn enga annmarka á þeirri stefnu stjórnvalda að leggja niður öll kjarnorkuver í landinu. Sú stefna brjóti hvergi í bága við stjórnarskrána.

Fyrirtækin, sem reka kjarnorkuverin, hafi hins vegar fjárfest í þeim á sínum tíma og eigi að fá sanngjarnar bætur verði starfsemin lögð niður.

Í Þýskalandi eru starfrækt 17 kjarnorkuver. Árið 2002 ákvað ríkisstjórn landsins, sem þá var samsteypustjórn Sósíaldemókrata og Græningja, að leggja niður öll kjarnorkuver.

Þetta var svo staðfest árið 2011, þegar Angela Merkel stýrði hægri stjórn CDU og Frjálslynda flokksins. Þá var ákveðið að árið 2022 yrði síðasta kjarnorkuverið tekið úr notkun.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×