Innlent

Þyrluköfun í fyrsta sinn á Íslandi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
mynd/Harald Hois
Átta manna hópur fór í fyrsta sinn hér á landi, dagana 20-29. júlí, í svokallaða þyrluköfun, eða heli-diving, Davíð Sigurþórsson, kafari og annar eiganda Dive fór með hópinn. Hann segir að þarna hafi blað verið brotið í ferðasögu á Íslandi.

„Það eru um það bil 200 manns í allri Evrópu sem stunda þetta og þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert hér á Íslandi. Við fórum í níu daga hálendisferð – sex leiðangursmenn og tveir leiðsögumenn. Við fórum með Norðurflugi sem lögðu til tvær þyrlur í þetta sem við tókum á leigu,“ segir Davíð. 

Við Frostastaðavatn við Landmannalaugar.vísir/davíð sigurþórsson
Þyrluköfun er köfun á svæði sem ekki er hægt að komast á nema með aðstoð þyrlu. Oft uppi á fjalli eða í dal þar sem enginn vegaslóði er eða of langt er að ganga með köfunarbúnaðinn. Davíð segir þetta vissulega ekki hættulaust, en ef farið er eftir settum reglum og öll tilskilin leyfi eru fyrir hendi þá þurfi ekkert að óttast.

„Þetta er nokkurra mánaða prósess. Það þarf að fá leyfi frá landeiganda, sýslumanni og samgönguyfirvöldum og þetta var svona samvinna á milli mín og þessara aðila sem komu með.“

Hann segir að í framtíðinni verði boðið upp á skipulagðar ferðir af þessu tagi. „Þetta er það sem koma skal. Nú eru öll tilsett leyfi fyrir hendi og því getum við sýnt ákveðið fordæmi með að bjóða upp á þessar ferðir. Þær munu þó kosta dálítið.“ 

Davíð segir þessa nýjung bjóða upp á fjölmörg tækifæri fyrir kafara hér á landi. „Þetta víkkar út sjóndeildarhringinn og þarna er hægt að skoða þann hluta landsins sem er í raun óskoðaður og órannsakaður að mörgu leiti. Og þarna gefst kostur á að skoða landið bæði að ofan og neðan.“

Í bláma fjallatjarnarinnar.mynd/davíð sigurþórsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×