Innlent

Þyrlan ræst út til að tryggja að Grímseyingar geti kosið

Atli Ísleifsson skrifar
Grímsey.
Grímsey. Vísir/Pjetur
„Það eru víst öll ráð til að bjarga öllu eða flestu nú orðið. Sem betur fer,“ segir Bjarni Magnússon, fyrrum hreppstjóri í Grímsey, eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar var fengin til að koma kjörseðlum til Grímseyjar. Ljóst var að hvorki var hægt að koma þeim út í eyjuna með ferjunni eða flugi vegna veðurs.

RÚV greindi frá þessu en samkvæmt lögum er ekki hægt að birta úrslit kosninga fyrr en öllum kjördeildum hefur verið lokað, en ef kjósendur fá ekki kjörgögn er kjördeild ekki starfhæf. 53 eru nú á kjörskrá í Grímsey.

„Það átti að senda kjörseðlana með ferjunni en það er versta rok þannig að hún komst ekki. Þyrlan mun fljúga með þá frá Dalvík og kemur um klukkan fjögur. Við verðum að athuga að það er haust og allra veðra von. Vanalega er kosið á vorin og veður skaplegra,“ segir Bjarni sem hefur haldið utan um framkvæmd kosninga í Grímsey frá árinu 1969.

Hann segir að mikið sé að gera við undirbúning nú daginn fyrir kosningar. Kjördeildin verður opnuð klukkan níu í fyrramálið og hvetur hann Grímseyinga til að kjósa snemma. „Ég vona að fólk taki tillit til þess.“

Vonast er til að hægt verði að fljúga út í eyjuna á morgun þannig að koma megi kjörseðlum til yfirkjörstjórnar á Akureyri. Spáð sé betra veðri en í dag.

Bjarni segir spenning vera í Grímseyingum nú í aðdraganda kosninga og hvetur fólk endilega til að nýta kosningaréttinn. „Kosningaþátttakan í Grímsey hefur verið góð en nú í seinni tíð er fólkið miklu meira á ferðinni en áður fyrr. Nú hefur maður ekki hugmynd um hvenær fólk er að koma eða fara. Það eru því margir sem kjósa utankjörfundar,“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×