Innlent

Þyrla Landhelgisgæslunnar send í sjúkraflug vegna óveðurs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar.
TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar. Vísir/Vilhelm
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst síðdegis beiðni frá lækni í Fjarðabyggð um aðstoð þyrlu vegna konu sem þurfti nauðsynlega að komast á sjúkrahús í Reykjavík.

Vegna óveðurs yfir landinu var ekki unnt að senda sjúkraflugvél eftir konunni. Þyrlan TF-LIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 15.41. Sjúkrabíll flutti konuna til móts við þyrluna.

Þyrlan flaug ekki þvert yfir landið sökum illviðrisins heldur meðfram suðurströndinni. Á leiðinni kom hún við í Vestmannaeyjum til að taka eldsneyti. Laust fyrir klukkan sex lenti TF-LIF svo á Hornafjarðarflugvelli og beið þar sjúkrabílsins.

Hann kom skömmu síðar og lagði þyrlan aftur af stað til Reykjavíkur klukkan 18.52. TF-LIF lenti á Reykjavíkurflugvelli nú um hálfníuleytið, þaðan sem sjúkrabíll flutti konuna á Landspítalann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×