Innlent

Þykir leitt að svörin ollu sárindum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Mér þykir leitt ef svör mín hafa valdið einhverjum sárindum eða verið túlkuð á annan hátt en til var ætlast,“ segir Daníel Guðjónsson.
"Mér þykir leitt ef svör mín hafa valdið einhverjum sárindum eða verið túlkuð á annan hátt en til var ætlast,“ segir Daníel Guðjónsson. Vísir/Pjetur
Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri, segir leiðinlegt hafi svör hans í umfjöllun Vísis um kynferðisbrot í Grímsey valdið sárindum. Valgerður Þorsteinsdóttir steig sem kunnugt er fram á dögunum og greindi frá því að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu eldri manns í Grímsey þegar hún var sjálf á fermingaraldri.

Akureyri vikublað greindi fyrst frá því að kynferðisbrot hefði átt sér stað í Grímsey sem væri á borði lögreglu. Engin nöfn voru birt í umfjölluninni og ekki kom fram að brotið hefði verið gegn barni. Vísir fylgdi málinu eftir og spurði blaðamaður Daníel hvort brotin væru gegn barni. Daníel sagði svo ekki vera en velti upp þeirri spurningu hvenær barn væri barn.

Valgerður steig svo fram í viðtali við Akureyri vikublað og greindi frá því á hvaða aldri hún hefði verið þegar brotið átti sér stað. Í pistli á vef Kvennablaðsins var hún ósátt við svör Daníels við fyrirspurn Vísis.

„Þegar maður er fjórtán eða fimmtán ára þá er maður barn! Þegar ég var 14 ára og mér var nauðgað þá var ég barn. Af manni sem var á sjötugsaldri,“ sagði Valgerður í pistlinum.

Allir undir átján ára börn skv. lögum

Daníel segir rétt að allir einstaklingar undir átján ára aldri séu börn samkvæmt barnalögum. Í eldri lögum hafi verið talað um börn og ungmenni og í daglegu tali sé gjarnan gerður greinarmunur á unglingum eða ungmennum og börnum.

„Taldi ég fréttamann vera að grennslast eftir því hvort um barn í þessum skilningi væri að ræða en ekki hvort að viðkomandi væri undir átján ára aldri eða ekki. Það voru mín mistök að ganga ekki úr skugga um hver meiningin væri,“ segir Daníel. Því vilji hann að spurning hans til fréttamanns sé skoðuð í því ljósi.

„Mér þykir leitt ef svör mín hafa valdið einhverjum sárindum eða verið túlkuð á annan hátt en til var ætlast.“

Daníel sendi Vísi áréttingu á þessu og er hún í heild sinni hér að neðan:

Varðandi umfjöllun um kynferðisbrot í Grímsey

Vegna skrifa í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum um svör mín við spurningum fréttamanns um það hvort um barn hafi verið að ræða í máli því sem verið hefur til umfjöllunar um kynferðisbrot í Grímsey þá vill ég koma eftirfarandi á framfæri.

Skv. barnalögum eru allir einstaklingar undir átján ára aldri börn. Í eldri lögum var talað um börn og ungmenni og í daglegu tali er gjarnan gerður greinarmunur á unglingum eða ungmennum og börnum.

Taldi ég féttamann vera að grennslast eftir því hvort um barn í þessum skilningi væri að ræða en ekki hvort að viðkomandi væri undir átján ára aldri eða ekki. Það voru mín mistök að ganga ekki úr skugga um hver meiningin væri.  

Spurning mín til fréttamanns um það hvenær barn væri barn skoðist í þessu ljósi. Mér þykir leitt ef svör mín hafa valdið einhverjum sárindum eða verið túlkuð á annan hátt en til var ætlast.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×