Skoðun

Þverpólitísk þvæla

Friðrik Indriðason skrifar
Þverpólitísk samstaða hefur myndast í einhverri nefnd á Alþingi um að draga skuli úr verðtryggingunni á Íslandi. Þessi þverpólitíska samstaða gengur út á að þetta eigi að gerast einhvern tímann á næstu misserum.

Fyrir þá sem ekki vita er misseri tímalengd upp á sex mánuði í dagatalinu. Næstu misseri þýða því væntanlega út næsta ár og fram á 2013 eða nánar tiltekið fram að næstu kosningum.

Hrein þvæla

Þessi þverpólitíska samstaða er sumsé hrein þvæla og eingöngu til þess ætluð að viðkomandi nefndarmenn líti vel út í fjölmiðlum þann daginn.

Það liggur augljóst fyrir að ekkert verður hróflað við verðtryggingunni á landinu meðan að við höfum íslensku krónuna. Enda er það ekki hægt þar sem vitað er að íslenskir pólitíkusar hafa engin bein í nefinu til þess að standa að baki þeirri öguðu hagstjórn sem til þarf. Þeir þurfa skjólið af gengisfellingum krónunnar eins og heróínfíkillinn þarf næstu sprautu.

Ég gæti skrifað fleiri hundruð dálksentimetra til að rökstyðja það hvernig íslenska krónan hefur verið hækjan undir gæluverkefni, kjördæmapot, eiginhagsmuni og hagstjórnarmistök íslenskra ríkisstjórna frá því að hún var slitin frá dönsku krónunni snemma á síðustu öld. Því ætla ég einfaldlega að sleppa slíku.

Áþján

Það er hinsvegar ábyrgðarhluti þegar kjörnir fulltrúar þjóðarinnar koma fram í fjölmiðlum og segja almenningi að það sé komin þverpólitísk samstaða um að létta aðeins af þeim áþján verðtryggingarinnar. Slíkt hefur aldrei komist í framkvæmd og mun aldrei komast í framkvæmd að neinu marki meðan að við höfum íslensku krónuna.

Frá því að Ólafslögin svokölluðu voru sett um verðtryggingu fyrir um 30 árum síðan hefur verðtryggingin verið grundvöllur íslensku krónunnar. Á henni hefur til dæmis lífeyrissjóðakerfið náð þeirri stöðu að vera yfir 2.000 milljarða króna virði í dag. Að hrófla við verðtryggingunni meðan krónan er á lífi er að hrófla við ævisparnaði landsmanna.

Ef eitthvert vit hefði verið í fyrrnefndri þingnefnd hefði hún átt að láta frá sér skilaboðin um að þverpólitísk samstaða hefði náðst um að afnema íslensku krónuna. Og þar með neyða íslenska pólitíkusa til þess að taka upp agaða hagstjórn.




Skoðun

Sjá meira


×