Innlent

Þverpólitísk samstaða um sanngirnisbætur

ingibjörg bára sveinsdóttir skrifar
Landakotsbörnin hafa fengið lágar bætur.
Landakotsbörnin hafa fengið lágar bætur. fréttablaðið/valli
Þverpólitísk samstaða er um að ríkið greiði þolendum ofbeldis af hálfu starfsmanna Landakotsskóla sanngirnisbætur.

Í frumvarpi, sem Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður að og leggur fram ásamt þingmönnum allra annarra flokka, er kveðið á um að innanríkisráðherra verði heimilað að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem beittir voru ofbeldi í Landakotsskóla og styðjast við skýrslu sem þegar hefur verið unnin þar að lútandi.

Brotin gegn nemendunum voru framin á árunum 1959 til 1984. Eftir að nokkrir fyrrverandi nemendur Landakotsskóla stigu fram og greindu frá ofbeldi sem þeir voru beittir af starfsmönnum skólans á árunum 1959 til 1984 var skipuð sérstök nefnd til að rannsaka starfshætti og viðbrögð kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vegna ásakana um kynferðisbrot og önnur ofbeldisbrot. Nefndin skilaði skýrslu 2012. Í henni greindu 30 fyrrverandi nemendur skólans frá ofbeldi sem þeir urðu fyrir. Af þeim sögðust átta hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Fagráð kaþólsku kirkjunnar taldi kirkjuna ekki bótaskylda nema í einu tilviki en samt var ákveðið að greiða nokkrum þolendum bætur, frá 82 þúsundum króna til 300 þúsunda króna. Bætur til þeirra sem sættu illri meðferð á vistheimilum og stofnunum ríkisins námu 400 þúsundum króna og upp í sex milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×