Innlent

Þverpólitísk samstaða um að lengja fæðingarorlof vegna andvana fæðinga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í dag eiga foreldrar rétt á þremur mánuðum sameiginlega vegna andvana fæðinga eftir 22 vikna meðgöngu og tveimur mánuðum einnig sameiginlega ef fósturlát verður eftir 18 vikna meðgöngu.
Í dag eiga foreldrar rétt á þremur mánuðum sameiginlega vegna andvana fæðinga eftir 22 vikna meðgöngu og tveimur mánuðum einnig sameiginlega ef fósturlát verður eftir 18 vikna meðgöngu. vísir/vilhelm
Þverpólitísk samstaða er um það innan velferðarnefndar Alþingis að lengja fæðingarorlof foreldra vegna andvana fæðinga þannig að hvort foreldri fái þriggja mánaða fæðingarorlof ef andvanafæðing verður eftir 22 vikna meðgöngu.

Í dag eiga foreldrar rétt á þremur mánuðum sameiginlega vegna andvana fæðinga eftir 22 vikna meðgöngu og tveimur mánuðum einnig sameiginlega ef fósturlát verður eftir 18 vikna meðgöngu. Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi til breytinga á lögum um foreldra-og fæðingarorlof hvað þetta varðar en fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.

Aðrir flutningsmenn frumvarpsins eru þau Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé og Róbert Marshall, samflokksmenn Páls Vals, auk Katrínar Jakobsdóttur, Vinstri grænum, Helga Hrafn Gunnarssonar, Pírötum, og Össurs Skarphéðinssonar, Samfylkingu.

Í greinargerð með frumvarpinu, sem er nú lagt fram í annað sinn, segir að það sé lagt fram í því skyni að „leggja rétt foreldra sem eiga andvana barn eftir 22 vikna meðgöngu að jöfnu við rétt foreldra sem missa barn stuttu eftir fæðingu á meðan á fæðingarorlofi stendur. Gildandi lög gera greinarmun á rétti til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks í slíkum tilvikum sem nemur sex mánuðum. Engin sanngirnisrök liggja því til grundvallar.“

Velferðarnefnd fellst á það að ekki sé ekki heppilegt að svo mikill munur sé á rétti foreldra til fæðingarorlofs-eða styrks eftir því hvort barn deyr fyrir eða eftir fæðingu. Þá segir í nefndaráliti við breytingartillöguna:

„Fyrir nefndinni kom jafnframt fram að reynslan sýndi að núgildandi réttur til fæðingarorlofs eða -styrks í kjölfar andvanafæðingar veitti foreldrum ekki nægt svigrúm til að jafna sig. Nefndin telur í ljósi þessa rétt að rýmka rétt til fæðingarorlofs eða -styrks í kjölfar andvanafæðingar þannig að hvort foreldri eigi sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs eða -styrks í kjölfar andvanafæðingar og leggur til breytingar á frumvarpinu því til samræmis.“

Nefndarálitið má nálgast hér og frumvarpið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×