Lífið

Þúsundir vottuðu O'Riordan virðingu sína

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Söngkonan verður jarðsungin á þriðjudag.
Söngkonan verður jarðsungin á þriðjudag. Vísir/Getty
Þúsundir komu saman í borginni Limerick á Írlandi í dag til að votta Dolores O‘Riordan, söngkonu Cranberries, virðingu sína. O‘Riordan verður jarðsungin á þriðjudag en opin líkkista hennar hvíldi í St. Joseph‘s kirkju í Limerick í dag.

Þar gátu aðdáendur hvatt O‘Riordan í hinsta sinn en hún lést skyndilega í London í síðustu viku, 46 ára að aldri. Margir þeirra sem lögðu leið sína að kirkjunni í dag voru með gul blóm meðferðis sem eiga að tákna sólskyn.

Inni í kirkjunni mátti heyra lög O‘Riordan og við hlið kistu hennar stóð „Lagið er búið en minningin lifir,“ á blómaskreytingu.

Margir þeirra sem lögðu leið sina að kirjunni í dag voru með gul blóm, sem táknuðu sólskin.Vísir/Getty
Brendan Leahy, biskupinn í Limerick, sagði í samtali við írska ríkisútvarpið að O‘Riordan hafi verið elskuð og dáð og væri afar kær dóttir borgarinnar. Hún hafi verið talsmaður þess að lifa í ást, frið og sannleika.

Kista O‘Riordan hefur nú verið flutt á útfararstofu í bænum Ballyneety og þar mun hún hvíla þar til á þriðjudag þegar hún verður jarðsungin frá St. Ailbes‘ kirkjunni í bænum Ballybricken.

O´Riordan gekk til liðs við The Cranberries árið 1989 eftir að hafa séð auglýsingu í staðarblaði að hljómsveitina vantaði söngkonu. Bræðurnir Noel Hogan og Mike Hogan höfðu stofnað sveitina sem endaði á að selja rúmlega fjörutíu milljónir platna á heimsvísu með O´Riordan fremsta í flokki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×