Erlent

Þúsundir mótmæltu fyrir utan Downing-stræti

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ekki sprengja Sýrland voru skilaboðin sem mótmælendur vildu koma á framfæri
Ekki sprengja Sýrland voru skilaboðin sem mótmælendur vildu koma á framfæri Vísir/Getty

Þúsundir manna komu saman fyrir utan skrifstofur forsætisráðherra Bretlands í Downing-stræti í London í dag. Mótmæltu þeir áætlun David Cameron um að hefja loftárásir á ISIS í Sýrlandi.

Samtökin Stop the War stóðu fyrir mótmælunum sem voru skipulögð með skömmum fyrirvara. Búist er við því að breska þingið kjósi um hvort að Bretar muni taka þátt í loftárásum Bandaríkjanna, Frakka og annarra bandamanna á skotmörk í eigu ISIS.

Umferð í nágrenni Whitehall, stjórnarráðsreitnum í London, stöðvaðist nánast algjörlega á meðan mótmælunum stóð en tónlistarmaðurinn Bryan Eno hélt erindi ásamt öðrum.

Um 4.000 manns tóku þátt í mótmælunum í London en smærri mótmælafundir fóru einnig fram í Bristol, Coventry, Manchester og fleiri stöðum víðsvegar um Bretland.

Mótmælendur kölluðu slagorð á borð við „Ekki í mínu nafni“ og „Ekki sprengja Sýrland“. Önnur mótmæli eru fyrirhuguð áður en að kosið verður um loftárásirnar á þinginu en búist er við því að hluti þingmanna Íhaldsflokksins muni ekki kjósa með formanni sínum og forsætisráðherra, David Cameron.


Tengdar fréttir

Frakkar herða loftárásir sínar

Frakkar sendu í dag sitt stærsta herskip, flugmóðurskipið Charles de Gaulle, til Miðausturlanda til að taka þátt í loftárásum á vígasveitir Íslamska ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×