Erlent

Þúsundir mótmæla „afætuskatti“ í Hvíta-Rússlandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ólöglegt er að mótmæla í Hvíta-Rússlandi og handtók lögreglan fjölda mótmælenda.
Ólöglegt er að mótmæla í Hvíta-Rússlandi og handtók lögreglan fjölda mótmælenda. Vísir/EPA
Þúsundir einstaklinga gengu um götur í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands í dag og mótmæltu svokölluðum „afætuskatti,“ sem yfirvöld hyggjast setja á þá sem hafa verið atvinnulausir lengur en sex mánuði. BBC greinir frá.

Skipuleggjendur mótmælanna kölluðu daginn í dag „frelsisdaginn,“en óeirðarlögreglan var kölluð út, en ólöglegt er að mótmæla stefnu yfirvalda í Hvíta-Rússlandi og var fjöldi mótmælenda handteknir.

Um er að ræða rúmlega 25 þúsund króna skatt, sem lagður er á þá sem hafa verið atvinnulausir í áðurnefndan tíma og hafa andstæðingar skattheimtunnar sagt að með skattinum sé einfaldlega verið að refsa þeim sem ekki geta fundið sér vinnu.

Yfirvöld segja hins vegar að skatturinn eigi að virka hvetjandi en engu að síður hafði forseti landsins, Alexander Lukashenko tilkynnt að skatturinn yrði ekki lagður á einstaklinga í ár, en yrði engu að síður lagður á, á næsta ári.

Lukashenko hefur ráðið ríkjum í landinu síðan árið 1994 og hefur af mörgum verið kallaður „síðasti einræðisherrann í Evrópu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×