Erlent

Þúsundir flýja Mosul

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst fimm þúsund manns, að mestu konur og börn, hafa flúið til al-Hol búðanna í Sýrlandi á síðustu tíu dögum.
Minnst fimm þúsund manns, að mestu konur og börn, hafa flúið til al-Hol búðanna í Sýrlandi á síðustu tíu dögum. Vísir/AFP
Þúsundir almennra borgara hafa flúið frá borginni Mosul í Írak og nærliggjandi umhveri hennar. Minnst fimm þúsund manns, að mestu konur og börn, hafa flúið til al-Hol búðanna í Sýrlandi á síðustu tíu dögum. Minnst þúsund bíða nú við landamærin.

Aðstæðurnar í flóttamannabúðunum þykja ekki góðar en búist er við því að allt að milljón manns muni flýja borgina þegar átökin færast nær henni.

Samkvæmt frétt Guardian hafa íbúar sagt frá því að vígamenn Íslamska ríkisins hafi yfirgefið stöður sínar í borginni og reynt að fela sig á meðal flóttafólks.

Rússar hafa varað Íraka og bandamenn þeirra við því að hleypa vígamönnum frá borginni. Hvort sem þeim tekst að flýja eða gert verði samkomulag við þá.

„Við vonum að samstarfsaðilar okkar í bandalaginu gegn ISIS hafi afleiðingarnar af því að stórir hópar vígamanna fari frjálsir ferða sinna í Mið-Austurlöndum í huga,“ er haft eftir Valery Gerasimov, yfirmanni hernarðafla Rússlands, á vef ríkisreknu fréttaveitunnar Tass.

„Því er nauðsynlegt að vígamennirnir verði ekki reknir frá einu landi til annars, heldur útrýmdir á staðnum.“


Tengdar fréttir

Íbúar Mosul óttast ofbeldi

Írakski herinn segir minnst tuttugu þorp umhverfis borgina hafa verið frelsuð úr haldi ISIS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×