Erlent

Þúsundir flóttamanna flýja í átt að landamærum Tyrklands eftir óvænta árás ISIS

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá flóttamannabúðum í grennd við Azaz.
Frá flóttamannabúðum í grennd við Azaz. Vísir/Getty
Allt að fimm þúsund flóttamenn stefna nú í átt að landamærum Tyrklands frá norðurhluta Sýrlands eftir að ISIS hóf óvænta árás á samfélög og flóttamannabúðir sem höfðu hýst flóttamennina.

Árás ISIS á flóttamennina kemur í kjölfar þess að vígasamtökunum tókst að sporna við sókn sýrlenskra stjórnarandstæðinga sem komist höfðu nálægt bænum Dabiq í norðurhluta Sýrlands. Dabiq hefur mikið táknrænt gildi fyrir samtökin en leiðtogar hópsins trúa því að þar muni eiga sér stað mikil átök sem boða muni ragnarök.

Gagnsókn ISIS virðist hafa komið stjórnarandstæðingum í opna skjöldu. Að minnsta kosti fimm þúsund flóttamenn yfirgáfu allt að tíu flóttamannabúðir vegna sóknar ISIS. Héldu þeir í átt að landamærum Tyrklands, nærri bænum Azaz. Þar hafa landamærin verið lokuð stærstan hluta ársins og svo virðist sem að tyrkneskir landamæraverðir hafa skotið að flóttamönnunum sem streymdu í átt að landamærunum í von um að komast yfir til Tyrklands.

Um 30 þúsund flóttamenn frá Sýrlandi hafast við í Azaz en Tyrkir hafa gefið það út að ríkið muni halda áfram að neita flóttamönnum inngöngu í landið. Samkvæmt tölum frá Flóttamannastofnum Sameinuðu þjóðanna eru um 1,8 milljónir flóttamanna nú í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×