Erlent

Þúsundir Breta vilja evrópsk vegabréf

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þúsundir Breta flykkjast nú að evróskum sendiráðum til að kanna möguleikann á að fá evrópskt vegabréf í kjölfar þess að Bretar kusu að yfirgefa Evrópusambandið.

CNN Money greinir frá því að sendiráð og sendiskrifstofur Þýskalands, Ítalíu, Svíþjóðar, Póllands og Ungverjalands hafi fundið fyrir auknum áhuga Breta á að ná sér í vegabréf hjá þeim.

Um tvö hundruð símtöl og tölvubréf bárust á dag til þýska sendiráðsins í London í kjölfar Brexit-kosninganna, sem er tífalt meira en venjulega, að sögn talsmanns sendiráðsins. Fyrirspurnir hafa dregist saman síðan þá, en nema nú um hundrað á dag.

Ítalska sendiráðið í Bretlandi fékk um fimm hundruð símtöl á dag eftir kosningarnar, frá Bretum sem voru að skoða möguleikann á að sækja um ítalskan ríkisborgararétt.

„Við fáum venjulega um tíu fyrirspurnir um ríkisborgararétt á ári,“ segir talsmaður í samtali við CNN Money.

Sexfalt fleiri hafa sótt um sænskan ríkisborgararétt á þeim þremur vikum sem liðnar eru frá kosningunum en venjulega hjá sænskum yfirvöldum. Þau fá að jafnaði tuttugu breskar umsóknir á viku en nú eru þær um hundrað og tuttugu. Svipaða sögu er að segja hjá pólska og ungverska sendiráðinu. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×