Enski boltinn

Þúsundasti leikurinn hjá Pulis á laugardaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tony Pulis, knattspyrnustjóri West Brom, nær ansi merkum áfanga á laugardaginn er hann stýrir liði í 1000. sinn í keppnisleik.

Það er viðeigandi að þessi tímamótaleikur fari fram á Bet365 vellinum í Stoke en Pulis hefur stýrt Stoke í tvígang á ferlinum, fyrst á árunum 2002-05 og svo 2006-13.

„Það er ótrúlegt að 1000. leikurinn sé í Stoke,“ sagði Pulis á blaðamannafundi í dag.

„Þegar ég verð hættur mun ég líta til baka á þessa 1000 leiki sem afrek. En núna er ég bara að hugsa um næsta leik,“ bætti Walesverjinn við.

Hinn 58 ára gamli Pulis hóf stjóraferilinn hjá Bournemouth 1992 og hefur stýrt liðum nær óslitið í 24 ár.

Auk Bournemouth, West Brom og Stoke hefur Pulis stýrt Gillingham, Bristol City, Portsmouth, Plymouth Argyle og Crystal Palace á ferlinum.

Flestir af þeim 999 leikjum sem Pulis hefur stýrt liðum í voru hjá Stoke, eða 464 talsins. Þar á eftir kemur Gillingham (216).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×