Innlent

Þuríður sundafyllir dæmi um samískar rætur Íslendinga?

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samar voru kallaðir Finnar í fornsögunum og bjuggu í norðanverðri Skandinavíu á víkingatímanum þar sem þeir búa enn. Íslendingasögur greina víða frá samskiptum norrænna manna og Sama enda bjuggu þeir víða á sömu svæðum.
Samar voru kallaðir Finnar í fornsögunum og bjuggu í norðanverðri Skandinavíu á víkingatímanum þar sem þeir búa enn. Íslendingasögur greina víða frá samskiptum norrænna manna og Sama enda bjuggu þeir víða á sömu svæðum. Teikning/Jakob Jóhannsson.
Þuríður sundafyllir, landnámskona Bolungarvíkur, er ekki aðeins sérstök í Íslandssögunni fyrir að vera ein fárra landnámskvenna. Fræðimenn hafa bent á að í frásögn Landnámabókar af Þuríði megi greina vísbendingar um að þessi einstæða móðir gæti hafa verið samísk. 

„Þuríður sundafyllir og Völu-Steinn son hennar fór af Hálogalandi til Íslands og nam Bolungarvík,“ segir Landnáma. Heitið Hálogaland var á víkingatímanum notað yfir Norður-Noreg, helstu heimkynni Sama. Þeir voru kallaðir Finnar í íslensku fornsögunum, talað var um Finnagaldur en Samar voru gjarnan bendlaðir við töfra og seið. 

„Hún var því kölluð sundafyllir, að hún seiddi til þess í hallæri á Hálogalandi, að hvert sund var fullt af fiskum,“ segir einmitt um Þuríði. 

Í þættinum Landnemarnir á Stöð 2 í kvöld, mánudagskvöld, klukkan 20.30, verður meðal annars rætt við sagnfræðiprófessor í Norður-Noregi, Alf Ragnar Nielsen, um samískar rætur Íslendinga og þátt Sama í landnámi Íslands. Alf Ragnar er höfundur bókar um landnámsmenn sem komu frá Norður-Noregi. Hann bendir jafnframt á að þekking á fiskveiðum virðist hafa flust til Íslands með landnámsmönnum frá Norður-Noregi og þar hafi Þuríður sundafyllir gegnt forystuhlutverki, miðað við þessa frásögn Landnámu: 

„Hún setti og Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi og tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði.“ 

Í þættinum verður jafnframt fjallað um landnámskonurnar Þórdísi spákonu á Skagaströnd - „einn fyrsta femínistann á Íslandi“- og Þorgerði á Sandfelli, sem teymdi kvígu til að helga sér Ingólfshöfðahverfi, en svo er Öræfasveit kölluð í Landnámu. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins.

Þorgerður landnámskona á Sandfelli var sögð hafa helgað sér land í Ingólfshöfðahverfi með því að teyma kvígu sína frá sólarupprás til sólarlags frá Kvíá í austri að Jökulfelli í vestri.Teikning/Jakob Jóhannsson.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×