Innlent

Þurfum tíma í jafn flókin mál

svavar hávarðsson skrifar
Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar, vonar að veiðigjaldafrumvörpin verði með fyrstu málum sem koma á dagskrá þingsins eftir páska – málið sé einfaldlega það stórt að engan tíma megi missa. Ljóst sé að þegar umsagnarferlinu lýkur komi það fyrst til kasta nefndarinnar sem gæti þá orðið undir lok apríl.

„Ég hefði kosið að hafa rýmri tíma fyrir mál sem eru í augljósum ágreiningi, en það er ekkert annað í boði,“ segir Jón.

Inntur eftir fréttaflutningi um málið, segir Jón það ofmat að túlka orð hans svo að honum finnist veiðigjöldin allt of há.

„Kannski hafa svör mín verið loðin, en enginn áfellisdómur á hugmyndunum sem í frumvörpunum birtast felst í því. Málið er einfaldlega þannig vaxið að við eigum eftir að fara í alla vinnuna í þessu. Þetta hefur fengið takmarkaða kynningu á vettvangi stjórnarflokkana, og það á við um mig sem aðra, svo við höfum fengið takmarkaðan tíma til að rýna í þetta og gera okkur grein fyrir hvernig þetta liggur,“ segir Jón og bætir við að í viðtölum sínum við sjómenn úti um land hafi hann heyrt þau sjónarmið að hækkað veiðigjald kæmi þeim illa. Eins séu vondar fréttir af mörkuðum, ekki síst í Rússlandi, okkar helsta kaupanda makrílafurða. „Það eru svo mörg sjónarmið í þessu að það er vont að hafa svo lítinn tíma sem raun ber vitni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×