Körfubolti

Þurfum að spila okkar besta leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlynur hefur verið frábær í undankeppninni.
Hlynur hefur verið frábær í undankeppninni. vísir/anton
Íslenska körfuboltalandsliðið freistar þess í dag að tryggja sér sæti á öðru Evrópumótinu í röð. Ísland mætir Belgíu í Laugardalshöllinni klukkan 16.00 og þarf að vinna til að eygja von um að komast á EM á næsta ári.

Önnur úrslit þurfa einnig að vera hagstæð en það er ekki nema fyrir færustu tölfræðinga að skilja hvernig árangur liðanna í 2. sæti riðlanna í undankeppni EM er reiknaður.

„Það væri þægilegra ef þetta lægi fyrir, að ákveðin úrslit myndu duga, en þetta truflar okkur ekkert sérstaklega mikið,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson í samtali við Fréttablaðið í gær. Hann segir að Ísland þurfi að eiga toppleik til að vinna sterkt lið Belga.

„Við þurfum að spila okkar besta leik í langan tíma og við stefnum að því. Það er skemmtileg áskorun,“ sagði fyrirliðinn um leikinn í dag.

Fyrri leikurinn gegn Belgum var jafn lengst af þótt hann hafi á endanum tapast með 15 stigum, 80-65.

„Við gátum spilað við þá á löngum köflum. Í fyrra spiluðum við æfingaleik við þá og töpuðum illa en síðasti leikur var jafn þangað til í fjórða leikhluta. Við fengum sjálfstraust við það,“ sagði Hlynur sem hefur spilað stórvel í undankeppninni.

Til marks um það hefur aðeins einn leikmaður tekið fleiri fráköst í undankeppninni en Hlynur og aðeins tveir eru með fleiri framlagsstig að meðaltali í leik. Þá er Hlynur númer fimm á listanum yfir flestar stoðsendingar í undankeppninni, með fimm slíkar að meðaltali í leik.

„Mér líður mjög vel. Ég var svolítið lengi af stað en þetta hefur gengið vel upp á síðkastið og vonandi heldur það áfram,“ sagði Hlynur sem leikur landsleik númer 103 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×