Innlent

Þurftu að beita klippum eftir árekstur á Sæbraut

Heimir Már Pétursson skrifar
Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi var tilkynnt um tvö innbrot í heimahús í Garðabæ.
Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi var tilkynnt um tvö innbrot í heimahús í Garðabæ. Vísir/Hari
Ökumenn tveggja bíla voru fluttir á slysadeild eftir árekstur á Sæbraut upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ökumaður annarrar bifreiðarinnar virðist hafa tekið U-beygju á Sæbraut í veg fyrir aðra bifreið sem ekið var austur Sæbrautina.

Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var í veg fyrir slasaðist og var fastur í bifreiðinni og þurftu slökkviliðsmenn að beita klippum til að ná honum út úr brakinu. Bifreiðarnar voru báðar fjarlægðar af slysstað með kranabíl.

Þá varð annað umferðaróhapp í Kópavogi upp úr klukkan níu í gærkvöldi þegar maður bakkaði bíl úr stæði og hafnaði á annarri bifreið. Ökumaður bílsins sem bakkað var á sló höfði sínu við höggið í hliðarrúðu sem brotnar og var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar.

Þá fékk stúlka sem var á gangi í Hafnarstræti í Reykjavík að verða klukkan fimm í nótt hlut í höfuðið sem virðist hafa komið frá efri hæðum húss við götuna. Stúlkan var flutt á slysadeild til aðhlynningar.

Þrír menn voru fjarlægðir af heimilum sínum í Ártúnsholti, Höfðahverfi og austurborginni vegna ölvunar og óláta eftir miðnætti í nótt. Mennirnir gista báðir fangageymslur þar til runnið er af þeim.

Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi var tilkynnt um tvö innbrot í heimahús í Garðabæ. Gluggi var spenntur upp og farið inn en ekki liggur fyrir að sögn lögreglu hverju var stolið.

Lögregla hafi einnig afskipti af nokkrum bílstjórum vegna gruns um ölvun við akstur eða aksturs undir áhrifum ólöglegra vímuefna. Þá var tilkynnt um að bíl hefði verið stolið á Granda seinnipartinn í gær. Lögregla stöðvaði bifreiðina skömmu síðar og var par í bílnum handtekið og var ökumaður einnig grunaður um að vera undir áhrifum vímuefna og að aka án ökuleyfis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×