Innlent

Þurfti að lyfta barnavagninum yfir snjóskafla

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mynd sem Markús tók á Hofsvallagötu í gær þar sem hann og kona hans fóru um með barnavagn í færðinni í gær.
Mynd sem Markús tók á Hofsvallagötu í gær þar sem hann og kona hans fóru um með barnavagn í færðinni í gær. Vísir
„Maður getur ýtt kerrunni í gegnum snjóskafla og það er alveg nógu erfitt. Það versta er samt að þurfa að fara yfir götu því þá er kannski bara metershátt fjall af snjó fyrir manni sem búið er að moka upp af umferðargötunni. Við vorum heppin í gær og gátum lyft kerrunni yfir en þetta er auðvitað líka erfitt fyrir þá sem eru til dæmis að stíga út úr og upp í strætó, gamalt fólk og lítil börn,“ segir Markús Már Efraím, bókavörður og tveggja barna faðir í Vesturbænum, aðspurður um hvernig sé að fara um sem gangandi vegfarandi í færðinni sem nú er á höfuðborgarsvæðinu.

Markús og kona hans lentu í nokkrum hremmingum í gær þegar þau fóru gangandi með barnavagn frá Hringbraut niður í bæ með barnið í ungbarnaeftirlit. Þau gengu meðal annars Hofsvallagötu:

„Maður gat ekki endilega séð að það væri búið að ryðja þá götu til dæmis en samkvæmt ruðningsáætlun borgarinnar hefði átt að verið búið að ryðja þar klukkan 8 en hún var tekin upp úr 12. Við brugðum því á það ráð að labba með barnavagninn út á götu sem er náttúrulega ekki gott auk þess sem þá var bara meiriháttar mál að komast aftur upp á gangstéttina.“

Eftir þessa svaðilför segist Markús mikið hafa velt verklagi varðandi snjómokstur fyrir sér og setti inn færslu á Facebook-síðu Samtaka um bíllausan lífsstíl um málið. Þar fékk hann svar frá Kristínu Soffíu Jónsdóttur, borgarfulltrúa, sem brást strax við að sögn Markúsar. Hann er ánægður með það en segir að svo eigi auðvitað eftir að koma í ljós hvort að moksturinn batni.

Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.Vísir/Valli
Borgin leggur áherslu á að allir komist leiðar sinnar

Kristín Soffía segir í samtali við Vísi það miður að erfitt sé fyrir gangandi vegfarendur að fara um borgina í færðinni sem nú er. Hún segist fagna ábendingum um það sem megi betur fara og að þeim sé öllum komið á framfæri.

„Oft er þetta svona í fyrsta snjónum. Það þarf kannski að hnippa í þá aðila sem eru að koma nýir inn og hnykkja á því hvernig verklagið á að vera. Þá kemst þetta vanalega í fínan farveg. Það koma einfaldlega upp alls konar hnökrar svona til að byrja með,“ segir Kristín Soffía.

Að sögn Jóns Halldórs Jónassonar, upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg, eru nú hátt í 50 vinnuvélar að í borginni og er unnið að því að ryðja snjó, salta og flytja snjó þar sem mikið magn hefur safnast saman.

„Við viljum auðvitað hafa greiðar leiðir og hafa gott aðgengi. Það getur hins vegar verið erfitt að eiga við þetta, þegar ruðningar verða við gangstíga og rutt er upp á gönguleiðir. Það er líka vegna þess að þeir sem ryðja umferðargötur og svo gangstéttir vinna á mismunandi hraða og þá verða oft vandræði,“ segir Jón. Hann leggur þó áherslu á að borgin vilji að allir komist leiðar sinnar og að enginn slasist.

Hann bendir fólki á ábendingavef borgarinnar vilji það koma á framfæri athugasemdum og ábendingum um snjómokstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×