Innlent

Þurfa meiri pening fyrir nærri tvöfaldan árgang

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Á Háskólatorgi.
Á Háskólatorgi. vísir/Anton Brink
Þar sem framhaldsskólanám hefur verið stytt í þrjú ár munu flestir nemendur fæddir árin 1998 og 1999 útskrifast úr framhaldsskóla á sama tíma, haustið 2018. Þetta þýðir að ásókn í háskóla landsins gæti orðið nærri tvöfalt meiri en gengur og gerist það haustið.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir skólann hafa verið að undirbúa sig fyrir nærri tvöfalda innritun.

Miðað við forsöguna ætti skólinn þó að ráða við hana. „Í kjölfar hrunsins tókum við inn á einu bretti stóran hóp um áramót. Það gekk ágætlega,“ segir hann.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.vísir/pjetur
Þá bendir Jón Atli á að þótt flestir framhaldsskólar landsins hafi lokið innleiðingu nýrrar aðalnámsskrár skólaárið 2015 til 2016 hafi tveir skólar fengið undanþágu, Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn í Reykjavík. „Það þýðir að árgangurinn verður ekki alveg tvöfaldur heldur dreifist þetta aðeins meira. Við gerum þó ráð fyrir því að það verði mun stærri árgangur haustið 2018 en venjulega,“ segir Jón Atli.

Til undirbúnings hefur skólinn meðal annars farið yfir inntökukröfur sínar. „Það er það sem skiptir máli. Að nemendur uppfylli þær kröfur vegna þess að styttingin hefur mögulega áhrif á innihald náms,“ segir Jón Atli og bætir því við að ef inntak námsins sé gott og nemendur uppfylli kröfurnar ætti skólinn að ráða við stærð árgangsins.

Síðastliðið haust söfnuðust þúsundir undirskrifta þar sem skorað var á stjórnvöld að auka útgjöld til háskóla landsins. „Ef það verða mun fleiri nemendagildi mun þurfa sérstakan stuðning vegna þess. Við erum undirfjármögnuð og það þarf að spýta verulega í,“ segir Jón Atli.

Hann kveðst ekki hafa hitt nýjan menntamálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, eftir að hann tók við embætti, en vonast til að gera það fljótlega svo hægt sé að fara yfir málin.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×