Skoðun

Þurfa gerendur ekki líka aðstoð?

Sædís Steinólfsdóttir skrifar
Ofbeldi þótti feimnismál áður fyrr en nú hefur þetta málefni verið meira í umræðunni og er fólk upplýstara en áður og lætur í ljós skoðanir sínar og segir reynslusögur. Oftast eru það þolendur sem koma fram í viðtölum, skrifa greinar á fréttaveitum, bloggum eða deila sögum sínum á Facebook – þetta er eitthvað sem þarf gífurlegan kjark til þess að gera og ber ég mikla virðingu fyrir þeim.

Nú þegar 16 daga átakið gegn kynbundnu ofbeldi stendur yfir munu þessi málefni líklega vera meira í umræðunni en áður.

Hingað til hef ég einungis heyrt um úrræði fyrir þolendur og aðstandendur þeirra. Hvers vegna er ekki meira fjallað um úrræði fyrir gerendurna? Líklega er það vegna þess að það eru fordómar í samfélaginu gagnvart körlum sem beita ofbeldi – þeir eru kallaðir illum nöfnum og dæmdir harkalega. Ekki misskilja mig, ég stend ekki með gerendum en mér finnst samt sem áður að þeir eigi jafn mikinn rétt á að fá hjálp við vandamálum sínum og þolendur.

Á Íslandi er ekki mikið sem stendur til boða fyrir þennan hóp. Eina meðferðarúrræðið sem sérhæfir sig í málum fyrir karla sem beita ofbeldi er: Karlar til ábyrgðar (KTÁ).

Ég heimsótti Kristján Má Magnússon sálfræðing sem sér um verkefnið fyrir hönd KTÁ á Akureyri og spjallaði við hann í dágóða stund. Hann er sá eini á Akureyri sem sérhæfir sig í þessum málum. Síðan meðferðin byrjaði í desember 2012 hafa 15 karlar leitað til hans.

Á höfuðborgarsvæðinu og hér á Akureyri hafa orðið miklar framfarir og dregið hefur verulega úr ofbeldi og í sumum tilfellum hefur engu ofbeldi verið beitt eftir að meðferð hófst. Ljóst er að gerendur þurfa aðstoð við úrlausn vandamála sinna og því mikilvægt að viðeigandi úrræði standi þeim til boða. Einnig er brýnt að fólk átti sig á því að gerendur þurfa á hjálp að halda þrátt fyrir að hafa brotið af sér.

Hægt er að kynna sér betur úrræðið Karlar til ábyrgðar á heimasíðu þess, http://www.karlartilabyrgdar.is/




Skoðun

Sjá meira


×