Innlent

Þurfa aukalán á þriðja milljarð til að ljúka framkvæmdum

Sveinn Arnarsson skrifar
Vaðlaheiðargöng tryggja samgöngur milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna að vetrarlagi. Göngin voru umdeild á sínum tíma og eru vísast enn
Vaðlaheiðargöng tryggja samgöngur milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna að vetrarlagi. Göngin voru umdeild á sínum tíma og eru vísast enn vísir/auðunn
Unnið er að því hjá eigendum Vaðlaheiðarganga að sækja um aukalán til ríkissjóðs upp á um 2,5 milljarða króna til að geta klárað framkvæmdir við göngin. Bergþéttingar vegna heits vatnsaga í göngunum og hrun úr gangaloftinu skýra að mestu leyti framúrkeyrslu ganganna.

„Nú eigum við um 17 prósent eftir af gangagreftrinum sjálfum. Þegar þeirri vinnu er lokið er hægt að áætla með mun meiri nákvæmni hversu dýr göngin verða þegar upp er staðið,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf. „Langmesta óvissan er í greftrinum sjálfum en vegna atvika, sem ekki var hægt að sjá fyrir, verða göngin dýrari en gert var ráð fyrir í upphafi.“

Þegar Alþingi samþykkti framkvæmdina, þann 14. júní árið 2012, áttu þau að kosta 8,7 milljarða króna án virðisauka. Að sögn Valgeirs er líklegt að göngin muni enda eitthvað á milli 13 og 14 milljarða að núvirði og verða opnuð fimmtán mánuðum á eftir áætlun, eða í byrjun árs 2018.

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf.
„Við erum að vinna í því að spara sem mest við getum í öðrum þáttum og velta hverri krónu. Allir þeir liðir sem hafa valdið kostnaðarauka eru liðir sem ekki er hægt að rannsaka áður en farið er í framkvæmdir svo það er ekki við neinn að sakast í þeim efnum,“ segir Valgeir.

Ekkert hefur gengið í gangagreftri Fnjóskadalsmegin síðan í apríl í fyrra þegar hvort tveggja varð að kalt vatn fyllti göngin og um 1.500 rúmmetrar af efni hrundu úr ganga­loftinu. „Við erum að fara að sjá fyrir endann á stoppinu Fnjóskadalsmegin og munum innan næstu tveggja vikna fara að sprengja þar. Þá getum við farið að vinna í báðum stöfnum samtímis og aukið framkvæmdahraðann,“ segir Valgeir.

Þótt göngin verði að endingu dýrari en gert var ráð fyrir í upphafi er enn ekki loku fyrir það skotið að þau verði að fullu greidd með veggjöldum. Á sama tíma hefur umferð aukist gríðarlega á svæðinu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×