Fótbolti

Þurfa að kasta upp á það hvor þjóðin kemst í átta liða úrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Riðlakeppni Afríkukeppninnar lauk í gær en úrslitin eru samt ekki ráðin í síðasta riðlinum og því eru enn bara sjö lið komin áfram í átta liða úrslitin.

Sú ótrúlega staða kom nefnilega upp að Gínea og Malí eru nákvæmlega jöfn í öðru sæti D-riðilsins og því þarf að kasta upp á það hvort liðið kemst í átta liða úrslitin.

Gínea og Malí gerðu 1-1 jafntefli í öllum þremur leikjum sínum þar af þeim síðasta þegar þau mættust innbyrðis.

Kevin Constant kom Gínea í 1-0 á 15. mínútu með marki úr vítaspyrnu en Modibo Maiga jafnaði fyrir Malí eftir aðeins tveggja mínútna leik í seinni hálfleiknum. Seydou Keita gat jafnað metin fyrir Malí skömmu eftir mark Constant en lét þá verja frá sér víti.

Það verður dregið um hvort liðið kemst áfram klukkan 15.00 í dag á sérstökum fundi skipulagsnefndar mótsins á hóteli í Malobo en keppnin fer fram í Miðbaugs-Gíneu.

Það lið sem hefur heppnina með sér mætir Gana í átta liða úrslitin en í hinum þremur leikjunum mætast eftirtaldar þjóðir: Vestur-Kongó-Austur-Kongó, Fílabeinsströndin-Alsír og Túnis-Miðbaugs-Gínea.

Kamerún varð neðst í sínum riðli og Senegal og Suður-Afríka sátu eftir í sínum riðli þannig að nokkrar af stóru knattspyrnuþjóðum Afríku hafa ollið vonbrigðum á þessu móti.

Átta liða úrslitin fara fram um helgina, tveir leikir á laugardaginn og tveir á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×