Erlent

Þurfa að greiða rúma milljón fyrir „malbik Hitlers“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndin sýnir götur í Düsseldorf á fjórða áratug síðustu aldar.
Myndin sýnir götur í Düsseldorf á fjórða áratug síðustu aldar. vísir/getty
Íbúar við götuna Auf'm Rott, í úthverfi Düsseldorf, þurfa að greiða að meðaltali 10.000 evrur, rúmlega 1,3 milljón krónur, í gatnagerðargjald fyrir götu sem virtist fullkláruð. Sagt er frá þessu af Die Welt.

Framkvæmdir við götuna hófust árið 1937 en síðan þá hafa ljósastaurar og holræsi verið endurnýjuð. Að auki hefur gangstéttum verið bætt. Allan þennan tíma, sem spannar tæp áttatíu ár, hefur gatan aldrei hlotið skráninguna „fullkláruð“ í bókhaldi borgarinnar. Því kemur rukkunin fyrir framkvæmdir síðustu áttatíu ára fram nú.

Íbúar mótmæltu gjaldinu og höfðuðu dómsmál til að fá því hnekkt. Nú hefur undirréttur staðfest að þeim beri að greiða gjaldið. „Framkvæmdir eru ekki háðar tímatakmörkunum,“ segir meðal annars í dómnum og því stenst gjaldtakan.

Í þýskum miðlum hefur málið verið kallað „malbik Hitlers“. Á tímum þriðja ríkisins þurftu íbúar ekki að greiða sambærilegt gjald. Upphæðin var fengin með því að líta aftur til eldri gjaldmiðils, þýska marksins, og gera ráð fyrir verðbólgu á tímabilinu. Í samtali við Spiegel segja íbúar að þeir muni sætta sig við niðurstöðu dómara og ekki áfrýja málinu til æðra dómstigs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×